Home Fréttir Í fréttum Fara upp fyrir skuldaviðmið með byggingu Stekkjaskóla

Fara upp fyrir skuldaviðmið með byggingu Stekkjaskóla

207
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bygging Stekkjaskóla á Selfossi hefur veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélagsins Árborgar. Sveitarfélagið nær ekki að uppfylla viðmið sveitarfélaga um jafnvægi í rekstri á næstu þremur árum. Bygging nýs skóla er hafin og á að ljúka árið 2022.

Þetta kemur fram í skýrslu KPMG sem lögð var fram til kynningar í bæjarráði Árborgar í gær. Í henni kemur fram að heildarfjárfesting við byggingu skólans sé 3,1 milljarður króna. Fjárfestingar sveitarfélagsins næstu árin séu verulegar og að mestu fjármagnaðar með lánsfé.

Samkvæmt áætlun mun handbært fé frá rekstri sveitarfélagsins, ekki standa undir afborgunum lána á árunum 2020-2024. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gaf heimild til bráðabirgða í faraldrinum sem leyfir sveitarfélögum að víkja frá skilyrðum um jafnvægis og skuldareglu við stjórn sveitarfélaga árin 2020-2022. Með byggingu skólans fer skuldaviðmið upp fyrir 150 prósent sem miðað er við í sveitarstjórnarlögum.

Talsverð fjölgun hefur orðið síðustu ár í sveitarfélaginu. Í skýrslunni segir að til lengri tíma litið ættu auknar tekjur að standa undir uppbyggingu og rekstri innviða í sveitarfélaginu, eins og Stekkjaskóla, gangi spár um fólksfjölgun eftir.
Útlit er fyrir að til skemmri tíma verði fjárhagur sveitarfélagsins erfiður vegna mikilla framkvæmda og aukinnar skuldsetningar.

Kennsla hefst í bráðabirgðastofum í skólanum strax í haust. Foreldrar hafa lýst yfir óánægju sinni með að börn séu flutt úr öðrum skólum í bráðabirgðastofur í óbyggðu hverfi, en skólinn rýs í útjarðri bæjarins. Hópur þeirra hefur lagt fram stjórnvaldskæru til menntamálaráðuneytisins vegna þessa.

Skýrsluna má lesa hér.

Heimild: Ruv.is