Home Fréttir Í fréttum Segir væntanlega nýbyggingu Landsbankans vera bruðl sem eigi eftir að reynast þjóðinni...

Segir væntanlega nýbyggingu Landsbankans vera bruðl sem eigi eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt

169
0
Svona eiga nýjar höfuðstöðvar Landsbankans að líta út

Fyrrverandi bankamaður, Halldór S. Magnússon, fer hörðum orðum um áform Landsbankans um að reisa nýja byggingu fyrir höfuðstöðvar sínar í miðsvæði borgarinnar.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Halldór þetta vera rándýra tímaskekkju og það sé fráleitt hvernig stjórnendur bankans reyni að telja þjóðinni trú um að þessi áform hafi sparnað í för með sér. Halldór ritar:

„Lengi fram eftir 20. öldinni áttu viðskiptavinir banka erindi í bankann til þess að sinna erindum sínum.

Nú fara fæstir þeirra lengur í bankann, heldur sinna þeir nær öllum bankaviðskiptum rafrænt heiman frá sér.

Sama máli gildir um samskipti starfsmanna milli deilda í banka, þær fara flestar fram rafrænt. Viðurkenna skal þó að stöku fundi starfsmanna innbyrðis eða starfsmanna og viðskiptavina getur verið heppilegt að halda með beinu sambandi þar sem menn hittast.

Það hentar hins vegar alls ekki að stefna fundargestum niður í miðborg, miklu heppilegra er að fundir fari fram á hentugum stað utan borgarmiðju jafnvel í næsta byggðarlagi þangað sem auðvelt er að komast og finna næg ódýr bílastæði.“

Halldór segir ekkert réttlæta að bankinn velji dýrustu lóð landsins undir höfuðstöðvar sínar. Hann blæs á fullyrðingar um hagkvæmni þessarar ráðgerðar sem hann telur að reynast muni dýrkeypt. Spádómur hans um framtíð málsins er nöturlegur:

„Undirritaður telur fullvíst að allar fullyrðingar stjórnar Landsbankans um hagkvæmni glæsibyggingar við Reykjavíkurhöfn reynist víðs fjarri öllum raunveruleika. Þjóðin muni sitja uppi með umtalsverðan aukakostnað af ævintýrinu en enginn mun telja sig bera ábyrgðina.

Bankastjórnin mun viðhafa þá afsökun að áætlanir hafi ekki reynst réttar, Bankasýslan og ríkisstjórn treystu bankastjórninni! Sömu menn munu halda áfram á sömu braut og málið gleymist áður en nýr dagur rís.“

Heimild: Dv.is