Home Fréttir Í fréttum 100 milljóna viðbótarkostnaður við endurbætur

100 milljóna viðbótarkostnaður við endurbætur

246
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Kostnaður sveitarfélagsins Skagafjarðar af framkvæmdum við Aðalgötu 21, sem á að hýsa Sturlungasetrið 1238, er 100 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir.

Formaður byggðaráðs segir að ný verk hafi bæst við á framkvæmdatíma. Fulltrúi Byggðalista í sveitarstjórn segir málið klúður.

Sveitarfélagið samdi við Sýndarveruleika ehf. um Sturlungasetur á Sauðárkróki. Sveitarfélagið gerir endurbætur á Aðalgötu 21 og lánar húsnæðið endurgjaldslaust í 15 ár. Í staðinn eignast það 10 prósenta hlut í félaginu.

Gert var ráð fyrir að það kostaði tæpar 200 milljónir að standsetja húsnæðið. Byggðaráð samþykkti nýverið að setja 98 milljónir í viðbót í framkvæmdirnar.

Kostnaðurinn er þar með kominn 50 prósent fram úr áætlun.

67 milljónir í ný verk
Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs, segir að fyrirfram ákveðnar framkvæmdir séu 30 milljónum yfir áætlun, einkum vegna aukinna krafna um brunavarnir.

„Hins vegar eru það síðan 67 milljónir sem eru ný verk.

Þar eru menn að taka ákvarðanir um að fara aðeins lengra í húsunum en gert var ráð fyrir í upphafi,“ segir Stefán Vagn.

Vilja starfsemi á efri hæðina
Þar á meðal er efri hæð, sem átti að geyma, en gólfið er svo illa farið að það er talið nauðsynlegt að klára framkvæmdir áður en sýningin hefst. Efri hæðin er í eigu sveitarfélagsins.

„Það rými, á efri hæðinni, er að stórum hluta óráðstafað. Menn hafa nú horft á það til lengri tíma að koma inn einhverri starfsemi á efri hæðina þannig að það dregst frá þeirri framkvæmd sem þá hefði verið farið í,“ segir Stefán Vagn. Síðan var ákveðið að færa inngang og bæta aðgengi fyrir fatlaða.

Meirihlutinn hafi stuðst við kostnaðaráætlun
Ólafur Bjarni Haraldsson, fulltrúi Byggðalista í sveitarstjórn Skagafjarðar, segir í grein á Feyki að málið sé klúður. „Þegar farið er af stað í verkefnið þá er miðað við kostnaðaráætlun upp á tæpar 200 milljónir en þær eru orðnar 300 milljónir í dag.

Meirihlutinn vill meina að þetta séu bara ný verk sem hafi aldrei verið áætluð, en það breytir því ekki að þau eru hluti af þessu stóra verkefni,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Öllum hafi mátt vera ljóst að gera þyrfti ráð fyrir brunavörnum og góðu aðgengi.
Málið er vægast sagt umdeilt og hefur aðkoma sveitarfélagsins valdið pólitískum óróa. Ólafur segir að meirihlutinn hafi notað 200 milljóna króna kostnaðaráætlun til stuðnings og brautargengis verkefninu, en ljóst sé að það sé aðeins hluti af því sem þurfti að gera.

Enginn talnaleikur til að koma verkefninu áfram
Stefán Vagn segir að öll sveitarstjórn hafi á sínum tíma stutt breytingar á húsnæðinu áður en lá fyrir hvaða starfsemi yrði þar. Það hafi alls ekki verið ætlunin að leggja upp með lægri kostnað til þess að koma verkefninu áfram. „Það hefði verið miklu auðveldara að fara fram með 300 milljóna króna áætlun þá, heldur en að vera að bæta við 100 milljónum í dag, eða 97, þannig að það er alveg ljóst að menn eru ekki í neinum leik þarna,“ segir Stefán Vagn.

Á að opna í næsta mánuði
Framkvæmdir ganga vel, að sögn Stefáns, og er stefnt að því opna sturlungasetrið í maí. „Þetta er farið að taka á sig mikla mynd og það eru öll plön hjá rekstraraðilum sem ganga út frá því að þetta verði opnað núna í næsta mánuði. Ég held að það séu allir mjög spenntir fyrir því.

Það er verið að ráða þarna starfsfólk og leggja lokahönd á húsnæðið, þannig að við erum mjög spennt fyrir því að sjá hvernig þetta mun koma út,“ segir Stefán.