Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Byggingaverktaki fær háar skaðabætur – ” Laumast við að hliðra þessu húsi...

Byggingaverktaki fær háar skaðabætur – ” Laumast við að hliðra þessu húsi til á byggingarreit”

903
0
Pósthússtræti Reykjanesbær Mynd: VF.is

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ, gagnrýnir meirihluta bæjarstjórnar vegna samkomulags sem gert var við eigendur nýbyggingar að Pósthússtræti 5.

Reykjanesbær mun samkvæmt bókun Margétar greiða eiganda hússins 43 milljónir króna í skaðabætur vegna að því er virðist mistaka við gerða skipulags, en nýbyggingin er einungis nokkrum metrum frá nærliggjandi byggingu.

Margrét segir málið vera eitt allsherjar klúður, en bókun hennar í heild má sjá hér fyrir neðan:

„Það er óskiljanlegt að horfa upp á hvernig skipulagsvinnu var háttað varðandi þessar byggingar.

Ljóst er að þetta er búið að vera eitt allsherjar klúður.

Auðvitað vekur þetta mál upp fleiri spurningar eins og hvort það sé eðlilegt að hægt sé að fá úthlutaða verðmæta lóð og draga það svo í mörg ár að hefja framkvæmdir.

Þessi bygging mun hafa áhrif á útsýnið frá Pósthússtræti 3. Mjög margir hafa einmitt keypt sér íbúðir í þessu húsi vegna útsýnisins.

Það eru verðmæti í útsýni þegar um fasteignir er að ræða. Þarna var verið að ganga á verðmæti fólks.

Með þessari nýbyggingu að Pósthússtræti 5, svo nálægt Pósthússtræti 3, er verið að draga úr gæðum og verið að rýra verðgildi eigna í Pósthússtræti 3.

Þetta mál birtist mér þannig að það hafi verið laumast við að hliðra þessu húsi til á byggingarreit, verktakanum í hag en íbúum í næsta húsi í óhag.

Fyrir það eiga íbúarnir í næsta húsi ekki að þurfa að gjalda. Nú hefur samkomulag náðst við byggingaraðilann og bærinn skuldbindur sig til að greiða honum 43 milljónir í skaðabætur.

Þetta er nú meira ruglið. Bæinn munar svo sannarlega um 43 milljónir, hver ætlar að axla þá ábyrgð? Ég spyr.

Var búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði í fjarhagsáætlun? Ég óska hér með eftir því að fá minnisblað um það hver heildarkostnaður bæjarins er á þessu klúðri.“

Heimild: Sudurnes.net