Home Fréttir Í fréttum Riftir kaupum á íbúðunum við Grensásveg

Riftir kaupum á íbúðunum við Grensásveg

293
0
Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Reykjavíkurborg hefur rift kaupum á 24 íbúðum við Grensásveg 12 fyrir 785 milljónir sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar gerði við félagið Leiguafl slhf. á.

Íbúðirnar áttu að vera liður í aukningu á félagslegu húsnæði í Reykjavík.

Trúnaður hefur ríkt um þessa riftun síðan um miðjan desember. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu að ákvæði um keðjuábyrgð skyldi ekki vera að finna í kaupsamningnum.

Trúnaði um riftunina var aflétt á fundi borgarráðs í dag. Í bréfi frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dagsett 11. desember, kemur fram að vegna tafa á afhendingu íbúðanna hafi borgin fengið verkfræðistofuna EFLU til að leggja mat á stöðuna og hvenær væri líklegt að íbúðirnar yrðu tilbúnar.

Samkvæmt upphaflegum kaupsamningi var gert ráð fyrir að íbúðirnar yrðu tilbúnar í apríl á síðasta ári. Svo var gerður viðauki þar sem kveðið var á um að afhenda ætti íbúðirnar í ágúst í fyrra.

Niðurstaða EFLU var að ef verkið gengi hnökralaust yrðu íbúðirnar tilbúnar í júní á þessu ári eða tæpu ári á eftir áætlun.

Borgin taldi því óhjákvæmilegt að rifta kaupsamningi og gerir kröfu um að kaupsamningsgreiðsla upp á rúmar 78 milljónir verði endurgreidd.

Tilkynnt var á blaðamannafundi í dag að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefði verið lögð niður.

Úttekt EFLU er dagsett 17. október í fyrra eða rúmum hálfum mánuði eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur hafði fjallað um aðstæður verkamanna við Grensásveg.

Í umfjöllun þáttarins kom fram að starfsemin við Grensásveg væri „skólabókardæmi um ástandið eins og það gerist verst á íslenskum byggingamarkaði.

“ Framkvæmdir hefðu hafist án þess að tilskilin leyfi væru til staðar, erlent vinnuafl snuðað um laun og vinnuaðstaðan óboðleg og allt að því stórhættuleg.

Starfsmenn höfðu meðal annars verið látnir fjarlægja asbest án nokkurs hlífðarbúnaðar.

Fulltrúar SJálfstæðisflokksins í borgarráði gerðu á fundi borgarráðs í dag athugasemdir við að hvergi í upphaflegum kaupsamningi hafi verið að finna ákvæði um keðjuábyrgð.

Ákvæðið hefði þó verið samþykkt á fundi innkauparáðs rúmu ári áður en upphaflegu kaupsamningur var undirritaður. „Ljóst er á þessu að málið er klúður frá upphafi til enda og þarfnast frekari skoðunar við,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna sem lögðu til að fram færi kynning á málefnum Grensásvegar.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, vegna málsins. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði í fréttum RÚV eftir umfjöllun Kveiks á sínum tíma að í þessu tilviki hefði ákvæði um keðjuábyrgð ekki átt við því borgin væri að kaupa fullbúnar íbúðir.

Hún sagðist þó vilja setja ákvæði um keðjuábyrgð í alla samninga borgarinnar.

Heimild: Ruv.is