Home Fréttir Í fréttum Áformar að reisa 150 íbúðir á Norðurlandi næstu fjögur árin.

Áformar að reisa 150 íbúðir á Norðurlandi næstu fjögur árin.

244
0
Mynd: RÚV
Húsnæðissamvinnufélagið Búfesti á Akureyri áformar að reisa 150 íbúðir á Norðurlandi næstu fjögur árin. Félagið hyggst sjálft standa að innflutningi húsanna en fulltrúi þess segir að gallaðar íslenskar byggingareglur tefji fyrir.

Fulltrúar nokkurra íbúðasamvinnufélaga og stéttarfélaga fóru nýlega til Svíþjóðar til að kynna sér starfsemi íbúðafélaga, löggjöf og fleira. Fulltrúi Búfesti segir sláandi hve löggjöfin og húsnæðismarkurinn sænski sé langt á undan því sem hér gerist.

Sænsk löggjöf mun hagstæðari fyrir leigjendur

Þá séu óhagnaðardrifin félög mjög áberandi í Svíþjóð og reglur leigjendum hagstæðar. „Til dæmis bara löggjöf í Svíþjóð, ef þú átt orðið örlítið meira en kannski fjórar íbúðir þá þarftu að skrásetja það og þú ræður ekki lengur hámarks leigu. Slík löggjöf myndi auðvitað hjálpa leigjendum hér alveg gífurlega mikið.

“ Og í þessu samhengi vill hann sjá íslensk íbúðafélög, sem ekki eru drifin áfram af hagnaði, sameina krafta sína til að ná fram umbótum í húsnæðismálum.

Segir norðlensk sveitarfélög viljug til samstarfs

Á næstu fjórum árum er áformað að á vegum Búfesti verði reistar að lágmarki 150 íbúðir í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi. Félagið hefur þegar gert samkomulag við Akureyrarbæ og Norðurþing um að útvega lóðir fyrir leigu- og búseturéttaríbúðir og á í viðræðum við fleiri sveitarfélög. „Það er kominn gífurlegur vilji sveitarfélaga hérna á þessum landshluta til að fara að skoða þetta endanlega,“ segir Eiríkur.

Hægt að túlka íslenskar reglur á mismunandi hátt

Og á vegum Búfesti sé áformað að hefja innflutning á sænskum einingarhúsum í þessum tilgangi næsta sumar. Þar geti gengisþróun þó sett strik í reikninginn og þá þurfi að leysa ýmsar tæknilegar hindranir. „Það er skrýtið að fyrirtæki í Svíþjóð, sem vilja selja til Íslands, geti ekki bara sent teikningar sínar af tilbúnum húsum og fengið kannski bara svar hjá Mannvirkjastofnun: „Já, þetta hús mun fá byggingaleyfi á Islandi.”

Vegna þess að reglur á Íslandi geta verið það sérstakar að það getur verið mismunandi túlkun byggingafulltrúa í þessu sveitarfélagi eða öðru sveitarfélagi,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is