Home Fréttir Í fréttum Sjúkrahótel of lengi í byggingu

Sjúkrahótel of lengi í byggingu

159
0
Tímaáætlanir um uppsetningu á jáeindaskanna voru byggðar á bjartsýni, að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur gagnrýnt hve langan tíma hefur tekið að koma jáeindakannanum í notkun. Tækið fékk spítalinn að gjöf frá fyrirfækinu haustið 2015. Það var fyrst tekið í notkun á dögunum. Hann tekur undir gagnrýni um að bygging sjúkrahótels hafi tekið of langan tíma.

„Þetta er mjög flókið verkefni,“ sagði Páll í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld. Húsnæði var byggt yfir jáeindaskannann og bæði þurfti að fá vottun á það og ýmsa verkferla. Það hafi tekið eitt og hálft ár.

Páll benti á það í vikulegum pistli sínum á föstudag og í Noregi hafi tekið þrjú til fjögur ár að setja slíka jáeindaskanna. Kári gagnrýndi þá samlíkingu og sagði meiri þörf fyrir skannann hér á landi þar sem ekkert slíkt tæki hafi verið fyrir. „Ég held að sjúklingum í Finnmörku í Noregi finnist alveg jafn vont að þurfa að fljúga fleiri, fleiri kílómetra til að komast í mikilvægar rannsóknir,“ sagði Páll.

Kári hefur lýst yfir áhyggjum af því hvernig eigi eftir að takast til við að byggja nýjan Landspítala og standa við áætlanir.

Páll kveðst sammála því að bygging sjúkrahótels við Landspítala á Hringbraut hafi tekið allt of langan tíma. Lærdómur hafi verið dreginn af því verkefni sem nýtist í þeim næstu. Þetta séu oft flókin verkefni sem krefist mikils utanumhalds. „Ég held að það sé full ástæða til að skoða utanumhald á opinberum verkefnum og ég veit að það hefur verið gert.

Ástæðulaust er að rífast um keisarans skegg, að mati Páls. „Það mikilvæga er að þetta stórkostlega tæki, þessi stórmannlega gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu er komin og við erum með öruggum hætti búin að tryggja það að hún virki.“

Heimild: Ruv.is