Hæstu byggingu kísilverksmiðju bætt við eftirá

Mynd: RÚV
Byggingu sem er helmingur af hæð Hallgrímskirkju, var bætt inn á lóð United Silicon í Helguvík eftir að skýrsla um umhverfismat var kynnt. Skipulagsstofnun var ekki tilkynnt um þessa viðbót og hefur krafið bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ skýringa.

Svo virðist sem mikill fréttaflutningur af vandræðagangi kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík hafi vakið Skipulagsstofnun til vitundar um að fleira væri bogið við verksmiðjuna en lyktin.

Í lok janúar sendi stofnunin bréf til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ þar sem gerðar eru athugasemdir við að þau mannvirki sem reist hafi verið á lóð United Silicon virðist ekki vera í samræmi við það sem kynnt var í matsskýrslu. Skipulagsstofnun minnir á það þurfi að færa rök fyrir því ef síðar sé ákveðið að víkja frá matsskýrslu. Bæjaryfirvöld eru krafin skýringa.

Þær bárust 5. apríl. Þar kemur fram að nýtt deiliskipulag hafi verið samþykkt tveimur og hálfu ári eftir að matskýrslan á umhverfisáhrifum var samþykkt og þá höfðu verið gerðar breytingar á byggingum í samræmi við óskir United Silicon. Sérstaklega eru það breytingar sem lúta að hæð húsa á efra svæðinu, en ljóst er að slíkar breytingar auka mjög sjónmengun frá verksmiðjunni.

Veigamesta breytingin er þó sú að heilu húsi, pökkunarstöð, var bætt inn í deiliskipulagið en hún var hvergi í upphaflegri matsskýrslu. Þessi pökkunarstöð er rúmir 38 metrar á hæð. Til samanburðar má geta þess að Hallgrímskirkjuturn er 74 metrar á hæð og því er pökkunarstöðin rúmlega helmingurinn af hæð kirkjunnar. Þetta er hæsta byggingin í kísilverksmiðjuna og það sem meira er, hún er staðsett á efra svæðinu, en United Silicon lagði áherslu á það í matsskýrslunni að hærri mannvirkin verði á neðra svæði lóðarinnar og verksmiðjan yrði því varla sjáanleg frá Keflavík.

Í bréfi Reykjanesbæjar er þessi skýring gefin: Reykjanesbær telur að deiliskipulagsbreytingin ásamt greinargerð sé ígildi tilkynningar til Skipulagsstofnunar um frávik frá matsskýrslu.

Þetta segja þeir sem vit hafa á að sé bara tómt bull og standist enga skoðun.

Skipulagsstofnun telur sig enn ekki hafa fengið fullnægjandi skýringu á því hvers vegna vikið var frá byggingamagninu og hvers vegna það var ekki tilkynnt.

Einar Júlíusson, byggingafulltrúi Reykjanesbæjar og sá sem skrifaði undir bréfið til Skipulagsstofnunar, segir að það sé engu að síður athyglisvert að Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma samþykkt hið nýja deiliskipulag og þá ekki gert neinar athugasemdir við breytingarnar. Hvorki hann né bæjarstjórinn, Kjartan Már Kjartansson, vildu veita fréttastofu viðtal vegna málsins.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment