Kæra Vegagerðina vegna útboðs Þverárfjallsvegar

Mynd: Unsplash
Verktakafyrirtækið Ístak hefur kært ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Skagfirska verktaka um byggingu nýs vegar milli Blönduóss og Skagastrandar.
Á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála verður ekki skrifað undir samning um verkið.

Þrír verktakar buðu í verkið

Þrír verktakar sóttu um verkefnið sem snýr að lagningu Þverárfjallsvegar í Refasveit og Skagastrandarvegar um Laxá.

Verktakarnir voru Ístak, Borgarverk og Skagfirskir verktakar, lægsta tilboðið kom frá þeim síðastnefnda.

Áætlaður kostnaður var kr. 1.391.123.414 en tilboð Skagfirskra verktaka var 7,6% yfir þeim kostnaði eða kr. 1.496.400.000.

Tilboð Ístaks og Borgarverks voru um og yfir 17% hærri en áætlaður verktakakostnaður.

Telja að Skagfirskir verktakar uppfylli ekki kröfu um reynslu

Það er staðarmiðillinn Feykir sem greinir frá þessu í morgun. Þar segir Stefán Erlendsson, forstöðumaður lögfræðideildar Vegagerðarinnar að kæra Ístaks snúist um að þeir véfengi að lægstbjóðandi hafi uppfyllt hæfiskröfur sem skilgreindar eru í útboðslýsingu.

„Þetta snýst aðallega um það að kærandi telur að lægstbjóðandi uppfylli ekki reynslukröfur í útboðinu en einnig að hann uppfylli ekki kröfur um lágmarks ársveltu, þ.e. fjárhagslegum kröfum bjóðenda.“ segir Stefán í samtali við Feyki.

Stefnt að verklokum í lok árs 2023

Hann vonar hann að kæruferlið komi ekki til með að tefja verkið. Vonir stóðu til þess að framkvæmdir hæfust strax í haust og væru að fullu lokið fyrir 1. nóvember 2023.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment