Áform um 12 metra hátt hús á Siglufirði valda ósætti

Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Skiptar skoðanir eru meðal Siglfirðinga um áform vélaverkstæðis í bænum að reisa 12 metra hátt hús við höfnina.
Athugasemdir bárust vegna grenndarkynningar, frá ferðaþjónustuaðilum og íbúum sem segja hús sem þetta geta breytt ímynd bæjarins.

Ekkert deiliskipulag á svæðinu

Það er staðarmiðillinn Trölli.is sem greinir frá þessu. Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar efndi til grenndarkynningar vegna fyrirhugaðrar byggingar við Gránugötu 5, Siglufirði.

Þar hefur JE vélaverkstæði kynnt hugmyndir um 12 metra hátt hús. Ekkert deiliskipulag er af svæðinu og því fór fram grenndarkynning vegna umsóknarinnar.

Hugmyndirnar eru nokkuð umdeildar og bárust athugasemdir ráðinu vegna þeirra, frá ferðaþjónustuaðila á svæðinu og íbúum. Sigurjóna Bára Höskuldsdóttir er ein þeirra.

„Þetta myndi breyta ímynd staðarins“

„Það hljómar ekki vel, eins mikið og ég skil vel að þeir þurfa náttúrlega að vera með verkstæði þarna og byggingu en spurning hvort það sé ekki hægt að finna hentugri staðsetningu þarna í Siglufirði.

Þetta myndi breyta ímynd staðarins all verulega hvað mig varðar og ég hugsa að það sjái það allir sem sjá vilja að ef 12 metra há bygging yrði sett upp þarna þá breyti það öllu,“ segir Sigurjóna.

Finnur þú fyrir því að íbúar þarna í kring séu ósáttir við þetta?

„Já ég finn fyrir því og við höfum rætt það nokkrir eigendur íbúða þarna í kring að þeir eru ekki sáttir.“

Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar

Teikningar sem JE Vélaverkstæði lagði fram

Mynd: Stoð verkfræðistofa – RÚV

Ferðaþjónustan gerir athugasemdir

Róbert Guðfinnsson sendi einnig athugasemd til skipulags- og umhverfisnefndar, fyrir hönd Selvíkur ehf. sem rekur meðal annars ferðaþjónustu á svæðinu.

„Ljóst er að ásýnd og ímynd Siglufjarðar hefur gjörbreyst á undanförnum árum og fjárfesting í ferðaþjónustu hleypur á milljörðum.

Af þessum sökum er brýnt að tryggja að öll uppbygging í bænum, ekki síst í nágrenni við miðbæinn, sé í samræmi við nýja ímynd bæjarins.

Þá er jafnframt brýnt að öll stjórnsýsla í kringum uppbyggingu og framkvæmdir á nærsvæðum miðbæjarins sé unnin á eins faglegan hátt og kostur er þannig að ekki skapist fordæmi fyrir byggingum sem skaða núverandi byggðamynstur, skerða útsýni og valda óþarfa skuggavarpi,” segir í athugasemd Róberts.

Fengu álit lögfræðings

Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar segir í samtali við fréttastofu að í kjölfar athugasemda hafi sveitarfélagið leitað eftir umsögn lögfræðings sem er sérfróður í skipulagsmálum. Að sögn Ármanns liggur sú umsögn fyrir og verður tekin fyrir á fundi í dag.

Heimild: Ruv.is

 

Leave a comment