Samiðn gagnrýnir harðlega stöðu iðnnáms

Mynd: Samiðn
Samiðn hefur sent frá sér ályktun þar sem staða iðnnáms hér á landi er gagnrýnd harðlega.
Staðan sé orðin mjög alvarleg þegar 700 umsækjendur fái ekki inngöngu í iðnnám.
Þá eigi 18 ára og eldri nánast enga möguleika á að komast í iðnnám og það sé algerlega óviðunandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samiðn. Samiðn gerir um leið athugasemdir við þá vegferð sem stjórnvöld eru í varðandi löggildingu iðngreina.

Þar styður ríkisstjórnin sig við skýrslu OECD varðandi afnám löggildingar í ákveðnum iðngreinum.

Bent er á að OECD horfði í skýrslu sinni eingöngu til iðngreina, en ekki annarra stétta sem búa við lögverndun. Enn og aftur er því verið að ráðast að iðngreinum, segir í tilkynningunni.

Löggilding bakara og ljósmyndara verði afnumin

Hér er vísað til þess að Efnahags- og framfarastofnunin OECD lagði til í nóvember á síðasta ári að löggilding bakara og ljósmyndara verði afnumin og að dregið verði úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga.

Þetta kom fram í máli Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD á kynningarfundi um skýrslu OECD um samkeppnismat stofnunarinnar á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sem gerð var að beiðni stjórnvalda.

Þór­dís­ Kol­brún­ Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, hefur tekið undir þessi sjónarmið og sagt að á Íslandi væri 30 millj­arða ábati inni­lokaður í efna­hags­kerf­inu vegna óþarfa regluverks í ferðaþjónustu- og byggingariðnaði. Þennan ábata þurfi að leysa úr læðingi með því að af­nema óþarfa reglu­byrði.

Ráðherrar gangi ekki í takt

Í tilkynningunni segir að Samiðn gagnrýni í ljósi þessa þá tvöfeldni sem birtist innan ríkisstjórnarinnar.

Á meðan mennta- og menningarmálaráðherra tali um mikilvægi iðnnáms sé atvinnu- og nýsköpunarráðherra í þeirri vegferð að vega að löggildingu iðnaðarmanna.

Það sýnir að ráðherrar gangi ekki í takt í þessum málaflokki.

Hér sé einnig um brýnt neytendamál að ræða. Að mati Samiðnar verði neytendur að geta gengið að því vísu að að þjónusta iðnaðarmanna uppfylli gæðakröfur.

Mikilvægt sé því að tryggja að þeir sem starfi á þessu sviði séu hæfir til að sinna þeim störfum og hafi lokið viðeigandi námi sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Afleiðingar af óviðunandi þekkingu og hæfni til að vinna þau störf geti verið mjög alvarlegar.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment