418 milljóna sölu­hagnaður hjá 105 Mið­borg

Teikning af Kirkjusandsreitnum. Myndin er tekin frá heimasíðu 105 Miðborgar. Aðsend mynd

Sala á fasteignum í byggingu hjá 105 Miðborg nam 4,15 milljörðum króna á síðasta ári.

105 Miðborg, sem heldur utan um byggingu fasteigna á Kirkjusandi, hagnaðist um 276 milljónir króna á síðasta ári.

Félagið, sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum, færði til bókar söluhagnað fasteigna upp á 418 milljónir króna sem var áætlaður miðað við áfallinn raunkostnað að teknu tilliti til áætlaðs kostnaðar við verklok.

Sala á fasteignum í byggingu nam 4,15 milljörðum króna á síðasta ári. Söluáætlanir stóðust „að teknu tilliti til seinkana sem hafa orðið á húsunum hjá verktaka“, að því er segir í ársreikningi félagsins.

105 Miðborg sagði upp verktakasamningi við Íslenska aðalverktaka, ÍAV, 19. febrúar síðastliðinn vegna meintra vanefnda.

Félögin hafa stefnt hvor öðru og krafist hátt í fjögurra milljarða króna vegna málsins.

Eigið fé 105 Miðborgar var 3,9 milljarðar og skuldir 5,2 milljarðar í lok árs 2020.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífsverk eru stærstu hluthafar 105 Miðborgar með 11,5% hlut hvor um sig.

Aðrir stórir hluthafar félagsins eru Brimgarðar, Sjóvá, Brú, VÍS og Íslandsbanki.

Heimild: Vb.is

Leave a comment