Misræmi upp á 105 milljónir vegna framkvæmda við skóla

Borgarnes. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Svo virðist sem 105 milljónir hafi verið skráðar á framkvæmd við grunnskólann í Borgarnesi án samþykkis eða vitneskju eftirlitsaðila.
Hugsanlegt er að einhverjir reikningar hafi verið samþykktir sem ekki hafi átt rétt á sér og því er mögulega um ofgreiðslu að ræða á einhverjum þáttum.
Byggðarráð Borgarráðs telur stöðuna alvarlega og vill að fram fari hlutlaus úttekt á verkefninu í heild.

Fram kom á fundi byggðarráðs í maí að framkvæmdir við grunnskólann hefðu farið töluvert fram úr áætlun á síðasta ári.

Ástæðurnar voru sagðar margvíslegar, meðal annars var húsið í mun verra ástandi en upphaflega var talið. Í ljós kom líka að misræmi var milli verkbókhalds eftirlitsaðila og bókhalds Borgarbyggðar.

Ákveðið var að fara ofan í saumana á þessu misræmi, finna frávikin og greina þau.

Niðurstaðan var kynnt á fundi byggðarráðs í morgun. Rúmlega 105 milljónir höfðu verið skráðar á verkefnið án samþykkis eða vitneskju eftirlitsaðila.

Fram kemur í bókun byggðarráðs að  mögulega hafi einhverjir reikningar verið samþykktir sem ekki áttu rétt á sér og þar gæti því verið ofgreiðsla.

Byggðarráð telur þessa stöðu alvarlega og lagði til á fundi sínum að KPMG yrði falið að gera hlutlausa úttekt á verkefninu í heild.

Nauðsynlegt væri að fara yfir alla reikninga sem hefðu verið bókaðir inn á verkið og greina þá.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment