Vilja stækka Strandveg 51 í Vestmannaeyjum

Strandvegur 51 í Vestmannaeyjum

Á 349. fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja þann 28. júní s.l. var kynnt umsókn Davíðs Guðmundssonar, f.h. Eignarhaldsfélags Tölvunnar ehf, vegna deiliskipulagsbreytingar fyrir Strandveg 51.

Umrætt hús er á götuhorni Strandvegar og Herjólfsgötu og hefur lengi hýst verslun og þjónustu undir vörumerkinu Tölvun.

Breyting á deiliskipulagi hússins miðar af því að heimila frekari viðbyggingar íbúða við húsið. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi miðbæjarins frá 2015 er heimilt að byggja tvær hæðir ofan á húsið þar sem þriðja hæðin er aðeins hluti flatarmáls neðri hæða.

Samkvæmt gögnum sem ráðið hafði til umræðu með kynningunni stendur til að hækka húsið upp í fjórar hæðir og auka byggingarmagn lóðar úr 849.2 m² í allt að 1.500 m².

Hæðir eru misstórar að grunnfleti eftir því sem ofar dregur. Í umsókn kemur fram að við byggingu hússins verði tekið mið að BREEAM vottunarkerfinu sem sem tekur mið að vistvænum byggingarefnum.

Húsið einkennist af flötu þaki og þaksvölum sem snúa til suðausturs. Tillagan var unnin af TPZ teiknistofu.

Skipulagsráð var hlynnt breytingunni og var skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram. Skipulagsbreytingin sjálf verður kynnt til umsagna síðar.

Tillöguuppdráttur húss sem lagður var til kynningar umhverfis- og skipulagsráðs.

Myndband af hugmyndinni:

 

Heimild: Eyjafrettir.is

Leave a comment