Tíu umfangsmiklar stofnbrautaframkvæmdir í bígerð

Mynd: Shutterstock
Betri samgöngur ohf. og Vegagerðin boðuðu til kynningarfundar klukkan tíu í morgun. Farið var yfir þær stofnvegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.

Sérstök áhersla var lögð á kynningu frumdraga að þeim lokaáfanga Arnarnesvegar sem liggur frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Áfanginn mun létta töluvert á umferð um Vatnsendaveg í Kópavogi austan Reykjanesbrautar.

Fullgerður Arnarnesvegur mun þá hafa áhrif á umferð fyrir íbúa í Kópavogi, Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði.

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa undirritað tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.

Samgöngusáttmálinn er samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Honum er ætlað að bregðast við aukinni umferð, auknu álagi á vegakerfið, aukinni mengun og breyttum lífsháttum og kröfum íbúa.

Sáttmálanum má skipta í þrjá helstu þætti sem eru; uppbygging stofnvegakerfisins, uppbygging almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og úrbætur á göngu- og hjólastígum.

Árni Mathiesen, stjórnmaður Betri samgangna, segir að stefnt sé að því ná hlut almenningssamgangna aftur upp í 12% heildarfjölda ferða á svæðinu. Hvað hjólandi og gangandi vegfarendur varðar þá er áætlað að alls verði lagðir 46 kílómetrar á tímabilinu.

Tíu umfangsmiklar stofnbrautaframkvæmdir

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir tíu umfangsmiklar stofnbrautaframkvæmdir annaðhvort hafnar eða í lokaundirbúningi. Þar má nefna Reykjanesbraut frá Kaldárselsbraut að Krísuvíkurvegi sunnan Hafnarfjarðar. Þetta var fyrsta verkefni samgöngusáttmálans og og því lauk í fyrra.

Einnig er lokið við að gera hluta Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ og hluta Suðurlandsvegar frá Bæjarhálsi að Vesturlandsvegi.

Á næsta ári verður farið í Arnarnesveg frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Áfanginn mun létta töluvert á umferð um Vatnsendaveg í Kópavogi austan Reykjanesbrautar. Stokkur fyrir Miklubraut er þá í frumskoðun en það er verkefni sem miklar væntingar eru til.

Þá er undirbúningsvinna við lagningu stokks á Sæbraut nálægt Elliðaánum langt komin. Að lokum stendur til að leggja Hafnarfjarðarveg í Garðabæ í stokk, en vinna við það verkefni er ekki hafin.

Fullgerður Arnarnesvegur mikilvægur fyrir frekari uppbyggingu

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavikurborgar, sammæltust um mikilvægi framkvæmdanna á Vatnsendavegi fyrir uppbyggingu efri hverfa í Kópavogi.

Mikill umferðarþungi er á veginum og því mun fullgerður Arnarnesvegur létta íbúum og atvinnurekendum lífið.

Í frumdragavinnu var útfærsla gatnamótanna við Vatnsendaveg skoðuð. Brúarlausn með ljósastýrðum gatnamótum við Breiðholtsbraut varð fyrir valinu, að sögn Bryndísar Friðriksdóttur, svæðisstjóra höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni.

Þá eru umbæturnar einkum mikilvægar til að minnka viðbragðstíma neyðaraðila. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fagna Samgöngusáttmálanum og því að ráðist sé hratt í mikilvægar framkvæmdir.

Eftirfarandi voru með erindi á fundinum:

  • Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
  • Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni.
  • Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
  • Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
  • Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment