Fljótandi skólp nálægt matvælum og mygla undir nýjum dúk í matsal

Nemendur skólans munu stunda nám í Korpuskóla næsta vetur. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Megn skólplykt gaus upp þegar starfsfólk verkfræðistofnunar Eflu opnaði dyr inn í dælurými í Fossvogsskóla fyrr á þessu ári.

Í ljós kom skólpdælur höfðu farið í sundur og skólp flaut ofan á vatninu í opnum brunni. Í næsta rými er unnið með matvæli.

Þetta er meðal þess sem kemur fram ískýrslu Eflu um ástand húsnæðis Fossvogsskóla sem Reykjavíkurborg birti í gær.

Skoðun Eflu var gerð í kjölfar kvartana foreldra nemenda við skólann, áður hafði Verkís ráðist í framkvæmdir við húsnæðið upp á rúman hálfan milljarð króna.

Fram kemur í skýrslunni að ráðast þurfi í ítarlegar heildarendurbætur á húsnæðinu til að koma megi í veg fyrir raka og mygluvanda. Er það mat Eflu að ekki eigi að skipta verkinu upp í áfanga ráðast aðeins í endurbætur á hluta húsnæðisins.

Ásigkomulag skólabygginganna sýna að viðhald hefur verið takmarkað undanfarin ár og mygla leynist enn víða.

Þar á meðal í matsalnum. „Í matsal kom fram vísbending um hækkandi raka í gólfi. Sýni var tekið úr dúk, lími og ílögn sem sýnir að þarna er myglusveppur að vaxa undir eldri og nýrri dúk. Nýr dúkur er á hluta gólfs í matsal og frístund,“ segir í skýrslu Eflu.

Reykjavíkurborg hefur unnið að undirbúningi og hönnun verksins frá því minnisblað Eflu kom út í maí síðastliðnum.

„Við í teyminu erum að kafa ofan í niðurstöðurnar frá Eflu með hliðsjón af þeim viðgerðum sem nú þegar hafa verið gerðar.

Við munum vinna að gerð áætlana með tilliti til margvíslegra þátta svo sem forgangsröðun á framkvæmdum, útboðum, leyfisveitingum og hvernig mögulegt er að hefja skólastarf sem fyrst aftur í Fossvogsskóla,” er haft eftir Ámunda Brynjólfssyni, sem stýrir skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis og skipulagssviði, í tilkynningu frá borginni.

Leggur borgin áherslu á að endanleg niðurstaða verði unnin í samráði við skólasamfélagið og verða tillögur kynntar á fundi með fulltrúum foreldra og starfsfólks í dag.

Afar óheppilegt ástand skólpdælu

Í skýrslunni segir að kjallarinn sé tvískiptur. Neðst er matsalur, eldhús, aðstaða fyrir frístund og geymslur. Þegar farið er inn í eldhúsið frá stigahúsi er gengið í gegnum ræstigang.

„Frá þessum gangi, sem er 6,5m², er aðgengi inn í búr, salerni fyrir starfsfólk og rými fyrir dælubrunn. Þegar hurðin inn í dælurýmið var opnuð gaus upp megn skólplykt þó þarna ætti samkvæmt öllu einungis að vera jarðvatn enda um opinn brunn að ræða,“ segir í skýrslunni.

„Við nánari athugun kom í ljós að tvær skólpdælur eru staðsettar í rýminu, önnur á gólfi við hliðina á dælubrunni, og hin ofan við vatnsyfirborð brunnsins.

Þar hafa lagnir farið í sundur og flaut skólp/fita ofan á vatninu og var dælan útötuð óhreinindum. Þessi staðsetning á dælubrunni og ástand skólpdælu er afar óheppileg þar sem vinnsla og geymsla matvæla á sér stað í næsta rými.“

Heimild: Frettabladid.is

Leave a comment