Kópavogsbær sýknaður af rúmlega hálfs milljarðs kröfu

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Landsréttur sýknaði Kópavogsbæ í gær af tæplega 600 milljóna króna skaðabótakröfu verktakafyrirtækisins Dverghamars. Fyrirtækið var meðal þeirra sem vildu fá úthlutað lóðum við Álalind á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi undir byggingar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins töldu bæinn hafa brotið lög með því að hafna umsókn sinni um lóð. Bærinn taldi að þar sem fyrirtækið hefði ekki skilað inn ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda uppfyllti Dverghamar ekki skilyrði fyrir úthlutun lóðar.

Þessu andmæltu Dverghamarsmenn með þeim rökum að hefði væri fyrir því að bærinn tæki við óárituðum ársreikningum þvert á reglur en það sagði dómstóllinn vera ósannað.

Þá hefði fyrirtækið ekki getað krafist þess að fá að skila inn undirrituðum ársreikningi eftir að útboðinu lauk því slíkt hefði getað raskað jafnvægi meðal umsækjenda.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu bæinn hafa bakað sér tjón með saknæmum og ólögmætum hætti en því höfnuðu bæjaryfirvöld. Þau voru sýknuð af kröfu fyrirtækisins, bæði í héraðsdómi og Landsrétti.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment