Ekkert leyfi veitt til framkvæmda við gosstöðvarnar

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Almannavarnir hafa ekki sótt um framkvæmdaleyfi til Grindavíkurbæjar fyrir byggingu varnargarða og leiðigarða við gosstöðvarnar. Þetta staðfestir Fannar Jónasson, bæjarstjóri, og segir almannavarnir hafa heimild til þess að ráðast í framkvæmdir til að grípa til varna.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, tekur undir það. Prófessor í umhverfisrétti telur að samkvæmt lögum þurfi framkvæmdaleyfi að liggja fyrir vegna þeirra framkvæmda sem nú standa yfir á svæðinu.

Síðustu daga hafa jarðýtur unnið að því að ryðja fjögurra metra háa leiðigarða til að koma í veg fyrir að hraun renni í Nátthagakrika þaðan sem það á greiðari leið í ýmsar áttir. Framkvæmdin er á vegum almannavarna og markmiðið er að tryggja að hraunið renni fremur áfram niður í Nátthaga. Áður hafa verið byggðir varnargarðar til þess að hægja á hraunrennslinu.

Eldhraun nýtur sérstakrar verndar

Eldhraun og eldvörp teljast til jarðminja sem njóta sérstakrar verndar, samkvæmt lögum um náttúruvernd. Til þess að raska slíkum jarðminjum þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélagi og sérstakan rökstuðning.

„Eins og þróunin er getur maður allavega sett spurningarmerki við það af hverju það var ekki farið í að undirbúa umsókn framkvæmdaleyfis,“ segir Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfisrétti.

Almannavarnalög veiti ekki undanþágu

Hún segir almannavarnalög ekki veita undanþágu frá því að sótt sé um framkvæmdaleyfi og að enginn neyðarréttur heimili framkvæmdir sem þessar. Í almannavarnalögum segir að það sé markmið almannavarna að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að almenningur verði fyrir tjóni eða það verði eignatjón af völdum náttúruhamfara.

„Þetta er markmið en markmið eitt og sér kemur ekki í staðinn fyrir, að mínu mati, eðlilega málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum og útgáfu framkvæmdaleyfa sem ég tel að þurfi að liggja fyrir vegna þeirra framkvæmda sem standa yfir,“ segir Aðalheiður.

Það ríkir ekki neyðarástand

Aðalheiður segir að það hljóti að skipta máli hvort það ríki raunverulegt neyðarástand eða ekki. „Almannavarnalög byggja fyrst og fremst á þeirri forsendu að takast á við afleiðingar neyðarástands. En eins og ég skil ástandið þarna þá er þetta ekki neyðarástand, heldur hægfara þróun.

Að mínu mati er ekkert sem kallar á það að fara ekki að öðrum lögum vegna þessara framkvæmda sem standa yfir núna. Og ég tel að það þurfi að fara að 13. grein skipulagslaganna og gefa út framkvæmdaleyfi og undirbúa þessar framkvæmdir; annarsgrindav vegar framkvæmdir til að auðvelda aðgengi að svæðinu og hins vegar byggingu varnargarða,“ segir hún.

„Ef þarna væri neyðarástand sem ógnaði lífi þá væri svæðið alltaf lokað, en það er ekki þannig. Það er einmitt allt gert til þess að halda svæðinu opnu,“ bætir hún við.

Mikil óvissa

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir rétt að nú ríki ekki neyðarástand. „En stóri óvissuþátturinn er: Hvað verður gosið lengi? Ef þetta hættir eftir tvær vikur eða tvo mánuði, þá væri sennilega í lagi að hraunið færi í Nátthagakrika. En ef þetta heldur áfram í fimm ár eða þrjátíu ár þá er komin opin leið fyrir hraunið til að dreifast víðar. Og við verðum að horfa fram í tímann,“ segir hann.

En hefur komið til umræðu að sækja um framkvæmdaleyfi?

„Það hefur ekki unnist tími til að skoða það. Við erum að eiga við atburð sem er í gangi og erfitt að segja til um framvindu, þótt við höfum gisk. Við höfum þurft að bregðast hratt við. Þá er kannski erfitt að fara að sækja um í leyfisferli sem tekur vikur eða mánuði. Eins og svæðið sem við vorum búin að helga okkur í gær til þess að vinna á, það fór undir hraun í morgun,“ segir Rögnvaldur.

Lögin loðin og í skoðun

Hann segir ljóst að lögin séu loðin og að það sé í skoðun í ráðuneytinu: „Lögin segja ekki endilega hreint út hvaða ráðstafanir við getum gert og hverjar ekki. Ég veit að það er verið að skoða það í ráðuneytinu hvort það þurfi ekki að skýra það. Lögin eru frekar loðin.“

Rögnvaldur bætir við að reynt sé að gera framkvæmdirnar á þann hátt að þær séu afturkræfar, en þó muni sennilega alltaf móta fyrir þeim.

Heimild; Ruv.is

Leave a comment