Afar góð verkefnastaða hjá Borgarverki

Óskar Sigvaldason í götunni Sóleyjarkletti í Borgarnesi sem Borgarverk tekur þátt í uppbyggingu á ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum í Borgarnesi. Ljósm. úr safni/ mm

Útlit er fyrir gott sumar hjá Borgarverki ehf. að sögn Óskars Sigvaldasonar framkvæmdastjóra. Hann segir verkefnastöðuna gífurlega góða.

Borgarverk er nú að vinna að tveimur stórum gatnagerðarverkefnum á Selfossi auk þess sem fyrirtækið er nú langt komið með framkvæmdir við nýjan sjóvarnargarð og vegaframkvæmdir við Faxabraut á Akranesi.

„Svo erum við með mörg önnur verk líka, eins og að endurnýja hitaveitu í gegnum Grjóteyrarland og að taka í gegn Hvítársíðuveg ofan við Húsafell.

Þá erum við að vinna á Skógarstrandarvegi, að laga svokallaða Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði og í vegagerð í Gufufirði. Þetta er svona í stórum dráttum þau verkefni sem við erum að sinna núna,“ segir Óskar.

Hann bætir við að nú sé verið að fara að undirrita samning við Vegagerðina um yfirlagnir á þjóðvegum um allt land.

„Þetta er með því mesta sem við höfum verið með í yfirlögnum, sem er ekkert nema jákvætt. Það eru því bara bjartir tímar framundan,“ segir Óskar.

Heimild: Skessuhorn.is

Fyrir áhugasama má benda á atvinnuauglýsingu frá Borgarverki í Skessuhorni vikunnar þar sem auglýst er eftir bifreiðastjórum og tækjastjórum til starfa.

Leave a comment