Vatnsverksmiðja rís á Borgarfirði eystra

Mynd: Ruv.is
Vatnsverksmiðja rís nú á Borgarfirði eystra. Þar verður lindarvatn sett á flöskur og selt sem munaðarvara. Markmiðið er að búa til 4-8 störf á staðnum.

Þegar okkur ber að garði er verið að hífa undirstöðurnar á staðinn en límtréseiningar liggja tilbúnar til uppsetningar. Vatnsævintýrið á Borgarfirði hefur verið í bígerð í fimm ár og nú er loks komið að framkvæmdum.

„Þetta er í rauninni hugsjónafyrirtæki, þannig séð. Við viljum bara byggja upp lítinn atvinnuveg á Borgarfirði eystra, með 4-8 starfsmönnum, og framleiða hérna eðalvatn á glerflöskum fyrir vel borgandi viðskiptavini.

Við þurfum ekki marga viðskiptavini til að reka litla verksmiðju en við þurfum góða viðskiptavini og við ætlum að finna þá.

Það er ekkert nýtt í heiminum að flytja vörur langar leiðir en það fer eftir því hvað viðskiptavinurinn vill borga og hvar hann er staddur.

En í þessu tilfelli erum við ekki að tala um risavaxið vatnsverkefni heldur ætlum við að hafa þetta í smáum stíl með gæðavöru,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, einn eigenda Vatnworks Iceland.

Indverskur fjárfestir heillaðist af náttúrunni

Indverski fjárfestirinn Pawan Mulkikar kostar framkvæmdirnar. „Hann kom bara hingað sem túristi að heimsækja okkur og fór í gönguferð með okkur og heillaðist af því sem hér er í gangi og hvað náttúran býður upp á.

Þetta er algjörlega hans frumkvæði og hann hefur borið hitann og þungann af öllum kostnaði við þessar framkvæmdir. Þetta er bara ein af auðlindum okkar í náttúrunni sem verður bara tekin á umhverfisvænan hátt úr vatnslind hér uppundir fjallinu, svona 800 metra í burtu.

Það er búið að senda vatnið í ótal greiningar víða um heim og kemur alveg vel út. Vatn, þetta er bara eins og rauðvínið og bjórinn; það eru til margar tegundir af vatni,“ segir Arngrímur Viðar.

Heimild: Ruv.is

 

Leave a comment