Stórgallað malbik olli banaslysi á Vesturlandsvegi

Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að verktakinn sem lagði malbik á Vesturlandsveg sumarið 2020 hefði átt að stöðva umferð þegar grunur var uppi um að malbikið uppfyllti ekki kröfur um vegviðnám.
Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð í júní á síðasta ári þar sem sambýlisfólk á mótorhjóli lést. Í skýrslunni segir að á slysdegi hafi sést mikla blæðingar á vegkaflanum þar sem slysið varð.

Nefndin birti skýrslu sína í dag þar sem aðdragandinn að slysinu er rakin. Hópur bifhjólamanna ók á fjórum hjólum suður Vesturlandsveg áleiðis til Reykjavíkur.

Umferð var þétt, það hafði rignt en stytt upp og vegyfirborð  blautt.

Eftir að fremsta hjólið hafði ekið 1,3 kílómetra eftir nýlögðu malbikinu missti ökumaðurinn stjórn á hjólinu þannig að það féll í götuna. Hann ásamt farþega og hjólinu runnu yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir húsbifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt.

Fram kemur í skýrslunni að ökumaður bifhjólsins sem ekið var næst á eftir þeim missti einnig stjórn á hjóli sínu og hafnaði utan vegar. Hann hlaut mikla áverka í slysinu.  Ökumönnum hinna bifhjólanna tókst að halda jafnvægi með því að styðja sig með fótunum en hlutu einnig áverka.

Í skýrslunni segir að ökumaður bílsins sem ók á eftir húsbílnum hafi þurft að víkja til vinstri til að lenda ekki aftan á honum. Aðrir þar fyrir aftan náðu að stöðva bíla sína. „Litlu mátti muna að alvarlegar aftanákeyrslur yrðu á slysstaðnum,“ segir í skýrslunni.

Nefndin rekur banaslysið til þess að umferð um veginn hafi verið heimiluð þrátt fyrir að grunur væri um að nýlagt malbik uppfyllti ekki kröfur um vegviðnám.

Það hafi heldur ekki uppfyllt gæðakröfur verkkaupa og verið of hált sökum bikblæðinga auk þess sem útboðskröfur voru ekki uppfylltar við framkvæmdirnar.

Hámarkshraði var 90 km á klukkustund en nefndin telur að umferðahraði hafi verið á kringum 80 km hraða.

Nefndin segir jafnframt að þótt hjólið sem lenti í slysinu hafi verið á slitnum sumarhjólbarða að framan sé ekki talið að það eigi afgerandi þátt í slysinu. Ástand vegyfirborðsins hafi verið svo alvarlegt.

Í skýrslunni er farið yfir malbikunarframkvæmdirnar og þar kemur meðal annars fram að viku fyrir slysið hafi orðið vart við bikblæðingar og eftirlitsmaður fór fram á að viðvörunarskilti yrðu sett upp.

Nefndin segir þau skilti hafi verið lægri en hefðbundin skilti og því mögulega síður áberandi. Mörg vitni greindu nefndinni frá því að þau hefðu ekki séð skiltin. Þá var hámarkshraði á vegkaflanum ekki lækkaður fyrr en eftir slysið.

Nefndin bendir jafnframt á að mæla eigi vegviðnám ef grunur er upp um að malbikið uppfylli ekki skilyrði útboðs.

Kallað var eftir viðnámsmælingu en samkvæmt Vegagerðinni var ekki hægt að koma henni við fyrr en á mánudeginum eftir slysið vegna anna.

Í skýrslunni kemur fram að blæðingar hafi komið fram alla vikuna fyrir slysið. Verktakinn hafði samband við malbikunarstöðina og lagði fram beiðni um að bikinnihald yrði minnkað.

Efnisrannsóknarskýrslur frá framleiðanda malbiksins bárust þriðjudaginn eftir slysið og þar kom fram að malbikið stóðst ekki kröfur útboðsins og rannsóknir benda til þess að lækkun bikinnihalds var ekki næg.

Heimild: Ruv.is

Leave a comment