Hægt að endurvinna steypu úr gömlum byggingum

Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins sem á og rekur BM Vallá segir fyrirtækið stefna að kolefnishlutlausri steypu á næstu 10 árum. Rekja má 35 til 40 prósent af losun kolefnis á heimsvísu til byggingariðnaðar.

„Byggingariðnaður á heimsvísu er mjög stór örlagavaldur og við náum ekki markmiðum okkar í loftslagsmálum öðruvísi en að byggingariðnaðurinn sé virkur þátttakandi,” sagði Þorsteinn í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Sementið telur mest
Í byggingariðnaði telur sementsframleiðsla mest í losun kolefnis. Þorsteinn segir norskan sementsframleiðanda sem Hornsteinn á viðskipti við, vinna nú að stærsta niðurdælingarverkefni á Norðurlöndum þar sem gamlar olíulindir verða nýttar til að dæla niður losun frá sementsiðnaði.

„Það mun lækka kolefnissporið af sementinu verulega og svo erum við að horfa til annara þátta á hönnunarstigi. Erum við að nota rétta steypu eða kannski of mikið sement,” segir hann og bendir á að flest ný hús séu klædd að utan og því þurfi ekki að nota steypu sem eigi að ein og sér að þola óheft íslenskt veðurfar.

Hann segir að hingað til hafi að mest verið horft til þess mannvirki séu sterkbyggð en miklu minna til kolefnisfótspors þeirra.

Hendum of miklu
„Okkur hættir til að rífa og henda of miklu þegar við erum að endurnýja byggingar.  Eins og þegar við erum hér að þétta byggð, þá erum við að rífa eldri byggingar – hvað verður um steypuna í þeim?

Á að endurnýta hana með einhverjum hætti?” Þorsteinn segir hægt að endurvinna gamla steypu, með því að mylja hana niður og fjarlægja járnin úr henni í stað þess að nota hana í landfyllingar og jarðvegstippa.

Kolefnishlutlaus steypa eftir 10 ár
„Það þarf að hugsa uppbyggingu húsa með loftslagmálin að leiðarljósi. Við stefnum að kolefnishlutlausri steypu á næstu tíu árum og erum búin að kortleggja c.a 60% af leiðinni og teljum okkur með vissu geta náð því fyrir þann tíma.

Svo höfum við 9 ár til að finna afganginn af leiðinni. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli því það má segja að bara okkar steypunotkun – að kolefnisjafna hana samsvarar því að skipta út 7 til 8 þúsund bílum í umferðinni á hverju ári úr bensíni í rafmagn.

Fyrirtækið ætlar að hafa opið grænt bókhald í gegnum það ferli að gera steypuna kolefnishlutlausa. „Við fengum vottun á steypuframleiðsluna hjá norsku kolefnisbókhaldsfyrirtæki í fyrra.

Þannig að við getum sýnt hvað hver steypuflokkur er með af kolefnisspori og þannig getum við rakið okkur í gegnum og séð hvaða árangri við erum að ná frá ári til árs. Þetta er löng vegferð sem við erum að hefja og þurfum að halda vel utan um árangurinn.”

Heimild: Ruv.is

Leave a comment