Byggja listamannasetur á Kjalarnesi

Mynd: Haraldur Guðjónsson/vb.is

Haraldur og Margrét Rut stefna á að opna listamannasetur, tónlistarstúdó og gallerí á Kjarlarnesi árið 2023.

Hjónin Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, og listakonan Margrét Rut Eddudóttir hyggjast byggja listamannasetur, tónlistarstúdíó og gallerí á Kjalarnesi.

„Sjáumst árið 2023,“ skrifar Haraldur í færslu á Twitter.

Hann segist hafa átt bágt með að trúa því þegar hann fann jörðina, sem sé síðasta ósnerta strandlengjan innan borgarmarka.

 

Haraldur seldi Twitter hönnunarfyrirtæki sitt Ueno í byrjun ársins.

Í lok mars greindi hann frá því að Twitter ætlaði samhliða kaupunum að opna skrifstofu í Reykjavík.

Í janúarmánuði var útibú Twitter frá Hollandi skráð í fyrirtækjaskrá undir nafninu Twitter Netherlands B.V. útibú.

Haraldur sagði frá því nýlega að hann ynni að því að stofna kaffihús með litlum kvikmyndasal á jarðhæð Tryggvagötu 11.

Félag Haraldar, Unnarstígur ehf., keypti jarðhæðina á 135 milljónir króna í janúar síðastliðnum sem telur tæplega 390 fermetra.

Einnig stendur hann fyrir söfnunarátakinu Römpum upp Reykjavík.

Markmið átaksins er að setja upp 100 rampa í miðborg Reykjavíkur fyrir fólk í hjólastólum á þessu ári.

Leave a comment