Home Fréttir Í fréttum Sprengingar raska ró íbúa í Vesturbæ

Sprengingar raska ró íbúa í Vesturbæ

206
0
Sprengt er fyrir kjallara og bílakjallara við Seljaveg. Mynd: fréttablaðið/stefán

Íbúi við Nýlendugötu í Reykjavík, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir mikið ónæði stafa af framkvæmdum sem standa yfir á lóð við Seljaveg 2.

Um er að ræða byggingu 102 íbúða og 54 bílastæða.

Á svæðinu er verið að sprengja fyrir kjallara og bílakjallara og samkvæmt upplýsingum frá Grandanum íbúðafélagi sem fer fyrir framkvæmdunum eru vanir menn að verki. „Þeir taka mið af því að valda sem minnstu ónæði,“ segir Gísli Reynisson, framkvæmdastjóri félagsins.

Íbúinn sem Fréttablaðið ræddi við segir ónæðið mikið og að fleiri íbúar í nágrenni við hann séu því sammála, myndast hafi mikil umræða um málið í hverfinu.

Hann segir að ekki hafi verið nægilega vel hugað að íbúum á svæðinu við framkvæmdirnar og engin viðvörun komi áður en sprengingarnar eigi sér stað. Þá verði fólki hverft við, sprengingarnar líkist jarðskjálfta.

Gísli segir öllum verkferlum um sprengingar í þéttbýli fylgt. ,,Áður en framkvæmdir hófust var sent dreifibréf í öll nærliggjandi hús þar sem upplýst var um framkvæmdina,“ segir hann.

„Til að láta vita af fyrirhugaðri sprengingu þá er flautað í ákveðið margar sekúndur bæði fyrir og eftir sprengingu,“ bætir hann við. Aðspurður hversu lengi umræddar sprengingar muni standa yfir á svæðinu segir Gísli að búast megi við sprengingum í um fjórar vikur til viðbótar.

Heimild: Frettabladid.is