Home Fréttir Í fréttum Tólf milljarða króna framkvæmdir að hefjast við stækkun Reykjanesvirkjunar

Tólf milljarða króna framkvæmdir að hefjast við stækkun Reykjanesvirkjunar

178
0
Reykjanesvirkjun var gangsett vorið 2006 með tveimur 50 megavatta hverflum. VÍSIR/VILHELM

HS Orka hefur ákveðið að hefja tólf milljarða króna framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar. Verksamningar við þrjú verktakafyrirtæki, Ístak, Hamar og Rafal, verða undirritaðir næstkomandi föstudag.

Framkvæmdir fara strax á fulla ferð og er gert ráð fyrir að þær skapi tvöhundruð ný störf á byggingartíma næstu tvö árin, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Jarðvarmavirkjunin, sem núna er eitthundrað megavött að afli, verður stækkuð um þrjátíu megavött og orkan boðin til sölu á almennum markaði. Samkvæmt upplýsingum HS Orku þarf ekki að bora nýjar holur heldur er ætlunin að nýta betur jarðhitavökva, sem þegar er til staðar, og runnið hefur óbeislaður til sjávar við Reykjanes.

Smíði Reykjanesvirkjunar hófst sumarið 2004 en helsta forsendan var samningur um raforkusölu til álvers Norðuráls á Grundartanga. Raforkuframleiðsla hófst svo vorið 2006 í tveimur 50 megavatta hverflum. Sögu Reykjanesvirkjunar má þó rekja allt aftur til ársins 1997 þegar vinna við umhverfismat hófst en fyrsta tilraunaholan var svo boruð árið 1998.

Heimild: Visir.is