Home Fréttir Í fréttum „Algjör steypa“ að borgin framleiði malbik

„Algjör steypa“ að borgin framleiði malbik

166
0
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir tímaskekkju að Reykjavíkurborg reki malbikunarstöð á frjálsum samkeppnismarkaði.

Það er tímaskekkja að borgin sé að reka malbikunarstöð á frjálsum samkeppnismarkaði. Það er nóg af aðilum inni á þessum markaði og með sömu rökum ætti borgin að fara inn á steypumarkaðinn, bílasölumarkaðinn og svo er lengi hægt að telja áfram,” segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og vísar þar til áforma um fjárfestingu í flutningi og nýrri staðsetningu Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

Malbikunarstöðin er í dag staðsett á Sævarhöfða en það stendur til að færa starfsemi stöðvarinnar á iðnaðarsvæði að Esjumelum. Malbikunarstöðin er í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og borgarfyrirtækisins Aflvaka.

Malbikunarstöðin Höfði starfar í samkeppni við þrjú fyrirtæki sem eru í einkaeigu. Sjálfstæðisflokkurinn lagði m.a. til, í umræðum um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun fyrir árin 2021-2025 sem fram fóru á dögunum, að fyrirtæki í eigu borgarinnar sem starfa á samkeppnismarkaði, líkt og Malbikunarstöðin Höfði og Gagnaveita Reykjavíkur, yrðu seld.

„Algjör steypa”
„Það skýtur skökku við, hvað samkeppnissjónarmið varðar, að Reykjavíkurborg sé að fara að eyða háum fjárhæðum í að setja upp nýja malbikunarverksmiðju í samkeppni við einkaaðila. Þeir eru því að eyða nokkrum milljörðum króna í að standa í samkeppni við einkarekin fyrirtæki. Það er illskiljanlegt að þeir séu að fara í þessa uppbyggingu þegar það er þegar nóg af fyrirtækjum á þessum markaði nú þegar.

Auk þess hlýtur Reykjavíkurborg að þurfa einhvern vegin að fá þessa fjárfestingu til baka. Svo maður spyr sig hvernig þeir eigi að fá fjárfestinguna til baka þegar samkeppnin á markaðnum er orðin svona hörð,” segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi Malbikstöðvarinnar og móðurfélagsins Fagverks, sem er eitt fyrirtækjanna þriggja sem er í samkeppni við Malbikunarstöðina Höfða.

Eyþór segir undarlegt að skuldug borgin sé að bæta við sig enn frekari skuldum til þess að standa í þessum flutningum og halda svo áfram að búa til malbik. „Það má segja að þetta sé algjör steypa,” segir hann.

„Meirihlutinn fer þarna gegn eigin meirihlutasáttmála, með því að ráðast í aukin útgjöld þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað í sáttmálanum. Nú er búið að gefa vilyrði fyrir því að malbikunarstöðin fái lóð á Esjumelum og flutningar þangað kosta milljarða.”

Að sögn Eyþórs er grænt plan meirihlutans, sem eigi að vera víðtæk áætlun um sjálfbærar fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík, ósjálfbært. „Hluti af græna planinu felur í sér að milljarðar eru settir í að flytja malbikunarstöð og halda áfram rekstri hennar. Þetta er hvorki skynsamlegt né grænt,” segir hann.

Dauðafæri hafi myndast fyrir Reykjavíkurborg til að fara út úr rekstrinum í kjölfar skipulagsbreytinganna og hægt hefði verið að greiða niður skuldir með sölu á fyrirtækinu. „Þessi ákvörðun sem meirihlutinn tekur er í raun skuldaplan fremur en grænt plan.”

Heimild: Vb.is