Home Fréttir Í fréttum Björgunarmiðstöð rís úr jörðu í Borgarnesi

Björgunarmiðstöð rís úr jörðu í Borgarnesi

119
0
Mynd: Skessuhorn.is

Hús Björgunarsveitarinnar Brákar í Borgarnesi er nú að taka á sig mynd og þokast upp úr jörðinni. Í haust hefur verið unnið að því að steypa sökkuleiningar og aðrar undirstöður hússins.

Síðustu dagana hafa síðan starfsmenn Steypustöðvarinnar (áður Loftorku) í Borgarnesi unnið að því að koma fyrir undirstöðum undir burðarsúlur og í framhaldinu verða sökkuleiningar settar niður.

Áður var búið að grafa upp úr grunninnum, fylla í hann efni og þjappa og sá Borgarverk í Borgarnesi um þá framkvæmd. Yfirstandandi verk hefur gengið vel, að sögn Jakobs Guðmundssonar formanns bygginganefndar Brákar.

Þessum áfanga verksins lýkur síðan með því að gólfplata hússins verður steypt en ekki er við því að búast að það verði fyrr en með vorinu nema að tíðin verði þeim mun hagstæðari, segir Jakob.

Bygging húss sem þessa er nauðsynleg framkvæmd og hefur um nokkurt skeið verið á óskalistanum. Núverandi húsnæði er gott og hefur þjónað björgunarsveitinni vel en áherslur hafa breyst að sögn Jakobs og húsið hentar ekki eins vel og það gerði, t.d. er staðsetningin ekki ákjósanleg.

Með nýju húsi verður húsnæðismálum sveitarinnar vel fyrir komið, vonandi til næstu áratuga.

Kostnaðurinn er hinsvegar talsverður og kostnaðaráætlunin er um 125 milljónir króna til að húsið verði fullbúið.

Heimild: Skessuhorn.is