Home Fréttir Í fréttum Milljarða framkvæmdir í hafnarkortunum við Þorlákshöfn

Milljarða framkvæmdir í hafnarkortunum við Þorlákshöfn

118
0
Elliði Vignisson, bæjarstjóri. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Stefnt er að því að fara í framkvæmdir við höfnina í Þorlákshöfn fyrir 2,3 milljarða á næstu árum, segir í Fjárhags og framkvæmdaáætlun Ölfuss til 2024 sem samþykkt var í síðustu viku. Hluti Þorlákshafnar er um 862 milljónir.

+Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 672 milljónir og hluti sveitarfélagsins sé um 241 milljón.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að mikil tækifæri séu tengd höfninni og að eftir breytinguna verði hægt að taka á móti stærri skipum en þeim Mykinesi og Akranesi sem sigla í dag með vörur til hafnarinnar.

„Í dag erum við að taka á móti um 130 metra skipum en með þessum breytingum, sem eru þó með fyrirvara um fjárframlög ríkisins, getum við tekið á móti 180 metra löngum og 34 metra breiðum. Það eru orðin skip sem er sambærileg við Norrænu,“ segir hann.

Viðræður eru í gangi um að fá tvö til þrjú skipafélög til að hefja siglingar í Þorlákshöfn. Þá með farþega, frakt og bíla – líkt og þekkist með Norrænu sem leggst að á Seyðisfirði.

Hann segir að það hafi legið fyrir lengi að þegar hafskip gætu tekið stefnuna á Þorlákshöfn myndu skip sigla þangað enda sparar það bæði tíma og peninga að þurfa ekki að fara fyrir Reykjanesið.

„Smyril Line hefur sýnt með úrvalsþjónustu að það er hægt að stytta siglingaleiðina um nærri sólarhring. Það sparar bæði tíma, og peninga og ekki síður er minna kolefnisspor.

Það er falleg sinfónía þegar rekstrarleg, umhverfis- og fjárhagsleg sjónarmið fara saman,“ segir Elliði sem ætlar að skipuleggja iðnaðarlóðir í kjölfarið svo að þær verði einnig tilbúnar þegar skipin fara að leggjast að bryggju.

Hann segist ekki efast um það að töluverða vinnu verði að fá í Þorlákshöfn verði þetta að veruleika.

Heimild: Frettabladid.is