Home Fréttir Í fréttum Viðbygging við Grunnskóla Húnaþings á áætlun

Viðbygging við Grunnskóla Húnaþings á áætlun

87
0
Viðbyggingin gengur vel. Ljósm: hunathing.is

Framkvæmdir við Grunnskóla Húnaþings vestra ganga vel og skólabyggingin rýkur upp, að því er segir á vef Húnaþings vestra.

Samið var við Alefli ehf. um uppsteypu, þakvirki og þakeiningar. Uppsteypu er nú lokið og byrjað er að setja upp þakeiningar. Búið er að loka þaki á norðurhluta viðbyggingarinnar og byrjað er á þakvirki á miðhluta hennar. Áætlanir gera ráð fyrir að húsinu verði lokað á þessu ári.

Á vef Húnaþings vestra kemur fram að allar áætlanir Aleflis hafi gengið eftir og að vinna þeirra og samskipti hafi verið til fyrirmyndar. Eftir áramót hefjist vinna innanhúss og farið verði að einangra útveggi og setja glugga í húsið.

Búið sé að bjóða út rafmagn og pípulagnir, samið hafi verið við Tengill ehf. og Ólaf Stefánsson pípulagnameistara um þá verkþætti. Útboð á öðrum verkþáttum fari af stað á næstu vikum.

Áætlað er að taka viðbygginguna í notkun í áföngum og verður þeim forgangsraðað út frá þörfum nemenda.

Fyrstu hlutar hússins verða teknir í notkun næsta haust en þá er gert ráð fyrir að matsalur, eldhús og hluti tónlistarskóla tekinn í notkun.

Samhliða þarf að ljúka tengingu við núverandi skólabyggingu ásamt fatahengi og snyrtingum í eldra húsi.

Heimild: Húni.is