Home Fréttir Í fréttum Skipulag hótels í gamla sjónvarpshúsinu fellt úr gildi

Skipulag hótels í gamla sjónvarpshúsinu fellt úr gildi

93
0
Mynd: Yrki - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176 – 178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33- 37.
Til stendur að breyta gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176 í hótel og hafði verið undirritað samkomulag við Hyatt-hótelkeðjuna.

Reykjavíkurborg efndi til hugmyndasamkeppni fyrir þremur árum um byggð á Heklureitnum svokallaða ásamt Reitum og Heklu.

Tveimur árum seinna var sótt um að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar en í tillögunni fólust heimildir til uppbyggingar á lóð gamla sjónvarpshússins við Laugaveg 176 vegna fyrirhugaðs hótels.

Skipulagslýsing deiliskipulagsins náði aðeins til þeirrar lóðar þar sem ekki tókust samningar við lóðarhafa Heklu.

Eigendur lóðarinnar við Laugaveg 178 kærðu ákvörðun borgarinnar um að samþykkja deiliskipulagið og sögðu að þeim hefði ekki verið boðið að koma að gerð deiliskipulagsins.

Deiliskipulagið væri efnislega rangt þar sem gert væri ráð fyrir að aðrar lóðir en Laugavegur 176 stæðu óbreyttar . Þetta væri ekki rétt því lóð þeirra mynd skerðast töluvert, teknir yrðu af henni 4 metrar.

Ekki hefði verið gætt jafnræðis við skipulagsgerðina þar sem lóð þeirra hefði ekki verið skipulögð með samsvarandi heimildum og lóð gamla sjónvarpshússins.

Borgin sagði reitinn á þéttingar-og þróunarsvæði og væri lykilsvæði á samgöngu-og þróunarás sem ætti að tengja vestur-og austurhluta borgarinnar. Á þessum ás væri ráðgert að byggja upp hágæða almenningssamgöngukefi.

Að mati borgarinnar lægju málefnaleg sjónarmið til grundvallar samþykkis deiliskipulagsins þegar horft væri til áherslna aðalskipulagsins um uppbyggingu á hágæða almenningssamgöngukerfi á og meðfram Laugavegi.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að eigendur lóðarinnar hafi ekki orðið varir við skipulagsgerðina fyrr en við auglýsingu mótaðrar deiliskipulagstillögu. Þar hafi lóð þeirra verið skipulögð án heimilda til frekari uppbyggingar.

Slíkir annmarkar hafi verið á samráði við hagsmunaaðila á skipulagssvæðinu og þar með undirbúning deiliskipulagsins að ekki verði hjá því komist að fella það úr gildi.

Á vef Reita kemur fram á áætlað hafi verið að framkvæmdir myndu hefjast í ársbyrjun og að hótelið myndi opna 2022. „Sú tímalína er nú í endurskoðun,“ segir á vef félagsins. Gert er ráð fyrir að hótelið verði með 169 herbergjum og að stærð þess eftir breytingar verði 9.300 fermetrar auk bílakjallara.

Heimild: Ruv.is