Home Fréttir Í fréttum Stefnir í miklar breytingar í miðbæ Kópavogs

Stefnir í miklar breytingar í miðbæ Kópavogs

164
0
Hér má sjá hvernig miðbærinn mun líta út samvkæmt nýju aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi. Mynd: PK ARKITEKTAR

Útlit er fyrir að miðbær Kópavogs muni taka stakkaskiptum á næstu árum.

Samkvæmt breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi sem hafa verið samþykktar til kynningar verða 550 íbúðir á svæðinu.

Svæðið í kringum Hamraborg verður skilgreint sem nýtt þróunarsvæði eða þéttingarsvæði og gert verður ráð fyrir verslun, þjónustu og íbúðum þar.

Samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ verða gömlu bæjarskrifstofur Kópavogs að Fannaborg 2,4 og 6 rifnar og á það sama við um hús við Vallartröð og Neðstutröð.

Þá er fyrirhugað að íbúðirnar nýju verði að fjölbreyttum stærðum og verða nýju húsin frá einni hæð til tólf.

Skipulagssvæðið afmarkast af Vallartröð í austur, Digranesvegi í suður, Digranesvegi 1, Hálsatorgi og Hamraborg 8 í vestur og Hamraborg 10 til 38 í norður.

Hér er svo mynd tekin frá sama sjónarhorni.
Mynd: ONNO

Í áðurnefndri tilkynningu segir að mannlífsás, gata fyrir gangandi og hjólandi, muni liggja frá menningarhúsum Kópavogs og alla leið að Kópavogsskóla.

Milli þeirra fjölbýlishúsa sem standi við Hamraborg og nýju húsanna.

Þar er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð nýju húsanna og verður áhersla lögð á að skapa aðlaðanadi umhverfi og nýta kosti umhverfisins og staðsetningarinnar í miðbæ Kópavogs.

Ein stærsta skiptistöð Strætó sé í næsta nágrenni og tvær leiðir Borgarlínu muni stoppa þar.

„Hamraborgarsvæðið er afar vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu og mikil tækifæri til þéttingar og endurnýjunar á þessu svæði.

Við munum leggja áherslu á gott umhverfi fyrir iðandi mannlíf og þjónustu, íbúðir verða af ýmsum stærðum og gerðum en munu meðal annars henta vel þeim sem kjósa bíllausan lífstíl og vilja hafa alla þjónustu í göngufjarlægð,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóri Kópavogs.

Kynningarfundur um nýtt skipulag miðbæjar Kópavogs og fyrirhugaða uppbyggingu verður haldinn í desember.

Fundinum verður streymt og verður hægt að leggja fyrir spurningar á meðan honum stendur.

Að loknum fundi verður upptaka af honum gerð aðgengileg á vefsíðu Kópavogsbæjar. Dagsetning fundarins verður auglýst þegar hún liggur fyrir.

Heimild: Visir.is