Home Fréttir Í fréttum Vara við óæskilegum áhrifum bygginga ofan við Bústaðaveg

Vara við óæskilegum áhrifum bygginga ofan við Bústaðaveg

118
0
Appelsínugulu húsin sýna áform um þrjár byggingar með 30 íbúðum í Furugerði ofan við Bústaðaveg. Mynd/Arkís

Íbúar nærri lóðinni Furugerði 23 við Bústaðaveg gagnrýna harðlega áform um að breyta skipulagi svo byggja megi 30 íbúðir á lóðinni.

Borgaryfirvöld eru hvött til að ganga ekki erinda fjárfesta á kostnað hagsmuna íbúanna sem fyrir eru. Þeir telja húsin of nærri Bústaðavegi og Furugerði ekki bera umferðina.

Það komast ekki 30 íbúðir fyrir á þessum lóðum nema með því að skerða lífsgæði og jafnvel lýðheilsu tilvonandi íbúa húsanna,“ segir í einu af mörgum mótmælabréfum vegna áforma um byggingu 30 nýrra íbúða í Furugerði meðfram Bústaðavegi.

Lóðin Furugerði 23 liggur norðan við Bústaðaveg og upp að Grensásvegi.

Á henni er tveir byggingarreitir og hefur félagið EA11 ehf. í hyggju að reisa þar þrjár byggingar á tveimur og þremur hæðum með samtals 30 íbúðum.

Nágrannarnir í kring mótmæla kröftuglega í athugasemdum vegna áformaðra breytinga á deiliskipulagi svo að af framkvæmdunum geti orðið.

Meðal annars benda íbúarnir á umferðar- og bílastæðamál. Þegar séu yfir 130 hús og íbúðir við Furugerði sem sé þó ekki meira um sig en nærliggjandi götur með aðeins tólf einbýlishúsum hver. Gangstéttar séu örmjóar og fólk gangi á götunni sjálfri.

„Í svörum Reykjavíkurborgar og Skipulagsráðs við spurningum íbúa um bílastæðamál er bent á þá stefnu Reykjavíkurborgar að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur, reiðhjól og göngustíga hverfisins til að komast leiðar sinnar.

Íbúar telja þetta svar ákveðna draumsýn þar sem algengast er að að minnsta kosti einn bíll fylgi hverju heimili,“ segir í einu bréfanna.

Benda íbúar á að með nýbyggingunum yrði þrengt að Bústaðavegi. „Nú þegar er mikil umferð á Bústaðaveginum og eykst hún stöðugt á hverju ári, ekki síst vegna þéttingar byggðar,“ segir í athugasemd. Bent er á að þrengingin myndi útiloka forgangsakrein fyrir strætó og sjúkrabíla. Það væri þvert á stefnu borgarinnar um að greiða fyrir almenningssamgöngum.

Íbúarnir benda á umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. „HER teldi æskilegra að fyrirhuguð íbúðarhús stæðu fjær Bústaðavegi vegna loftmengunar frá umferð, einkum svifryksmengunar,“ segir í umsögninni.

Þar segir einnig að æskilegra væri að staðsetja íbúðarhús fjær veginum með tilliti til hljóðvistar. Segja íbúarnir þannig að ekki sé verið að bera hag verðandi íbúa fyrir brjósti því tillagan uppfylli hvorki kröfur um loftgæði né hljóðvist.

Lóðin Furugerði 23 teygir sig með Bústaðavegi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Athugasemd er gerð við hversu nærri Bústaðavegi húsin eigi að standa. „Verður hægt að opna glugga og hurðir í suður án þess að fá inn til sín sót og ösku frá umferðinni og tala nú ekki um hávaðann þegar götur er blautar og bílar á nagladekkjum?“

Nefna íbúarnir að lóðin sé á klöpp og augljóslega þurfi að sprengja mikið fyrir bílakjallara. Skemmdir á nærliggjandi húsum séu óhjákvæmilegar. „Hver verður endanlega ábyrgur fyrir því tjóni sem kemur til með að skapast og hver er réttur íbúa varðandi skaðabætur?“ er spurt.

Í einu bréfanna segir að íbúar mótmæli ekki uppbyggingu innan marka núverandi skipulags upp á fjórar til sex íbúðir enda hafi lóðirnar lengi verið í niðurníðslu. Þeir séu að mótmæla magninu sem reynt sé að „troða“ á reitinn.

„Þetta er ekki gáfuleg uppbygging þar sem þetta mun skapa ríg og leiðindi fyrir nærliggjandi nágranna. Þetta er einfaldlega byggt á græðgi fjárfesta sem eiga ekki raunverulega hagsmuni þarna.“

Hjón á áttræðisaldri sem hafa búið í einbýlishúsi næst lóðinni í tæpa hálfa öld skora á borgaryfirvöld að nýta sér ákvæði í samkomulagi við lóðarhafana um að segja megi því upp einhliða ef samþykkt deiliskipulag lægi ekki fyrir í nóvember 2019. Borgin megi ekki veita byggingarleyfi sem gangi gróflega gegn hagsmunum íbúa í grenndinni.

„Frá þröngu eigingjörnu sjónarhorni sjá þau vafalaust viðskiptatækifæri og gróðavon í byggingu 30 íbúða í Furugerði 23 og auka þannig lífshamingju sína, jafnvel þó þau jafnframt fótum troði lífshamingju okkar og fjölda annarra íbúa við Furu- og Espigerði,“ segir um eigendur byggingarlóðarinnar Furugerðis 23 í bréfi hjónanna.

Heimild: Frettabladid.is