Home Fréttir Í fréttum Kranar sem féllu voru komnir til ára sinna

Kranar sem féllu voru komnir til ára sinna

245
0
Krani féll til jarðar við nýbyggingu í Urriðaholti í Garðabæ fyrir tæpri viku. Fréttablaðið/Stefán

Það sem af er ári hafa tveir byggingarkranar fallið á hliðina við byggingarstaði. Óhöppin geta leitt til þess að eftirlit með byggingarkrönum verði aukið hérlendis.

Það sem af er ári hafa tveir byggingarkranar fallið á hliðina við byggingarstaði. Mikil mildi er að engin slys hafi orðið á fólki en óhöppin gætu leitt til þess að eftirlit með byggingarkrönum verði aukið hérlendis, í takt við það sem tíðkast til dæmis í Danmörku.

Fullt tilefni sé til, enda er hlutfall krana sem komnir eru til ára sinna hátt hérlendis. Þannig var krani sem féll til jarðar í janúar á þessu ári af árgerðinni 1993, en kraninn sem féll í byrjun nóvember var árgerð 1991.

„Sá fyrri fauk niður í hvassviðri. Niðurstaða Vinnueftirlitsins var sú að kraninn hefði að öllum líkindum verið fastur í vindbremsu. Varðandi þann sem féll nú í nóvember þá stendur rannsókn yfir og er lítið hægt að fullyrða um niðurstöður.

Þó er vitað að hvassviðri gekk yfir þennan dag og er ekki útilokað að veður hafi haft áhrif á að kraninn féll,“ segir Vera Einarsdóttir, upplýsingafulltrúi Vinnueftirlitsins.

Eftirlit með byggingarkrönum hérlendis er með þeim hætti að sérstakar skoðanir fara fram árlega auk þess sem Vinnueftirlitið framkvæmir takmarkaðar úttektir, svokallaðar eftirlitsskoðanir, í hvert skipti sem krani er reistur á nýjum stað.

Er það á ábyrgð eigenda að kalla eftir slíkum skoðunum.

Eftirlitsskoðanir eru framkvæmdar þar sem kraninn er reistur og er notast við ýmis sérhæfð tæki við verkið. Verklag við eftirlit með byggingakrönum byggir á verklags- og vinnureglum Vinnueftirlitsins, skoðunarhandbók og gátlista.

Við framkvæmd eftirlits er horft til þeirra leiðbeininga sem koma frá framleiðendum ásamt rekstrardagbók kranans.

Skoðaðar eru merkingar á krana, staðsetning hans og undirlag, með tilliti til gangbrauta og umferðarleiða á vinnusvæði ásamt brautum og teinum.

Auk þess er hugað vel að rafbúnaði og jarðtengingu kranans. Ef undirlag reynist ótraust er framkvæmd þjöppunarmæling á jarðvegi.

Við ársskoðun er burðarvirki skoðað. Sé þörf á endurbótum þarf eigandi kranans að láta framkvæma þær og láta óháðan aðila mæla þykkt og ástand burðarvirkisins. Loks er ástand víra metið m.t.t. slits, tæringar eða aflögunar.

Slíkt eftirlit tíðkast einnig í löndunum í kringum okkur en þar tíðkast einnig ítarlegri skoðanir á 10 ára fresti þar sem allt burðarvirkið er tekið til ítarlegrar skoðunar.

Í svari Vinnueftirlitsins við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að 54 prósent allra byggingarkrana á Íslandi eru árgerð 2009 eða eldri. Hinsvegar séu 30 prósent allra krana frá 2017 eða yngri.

Undanfarin ár hefur verið til skoðunar að gefa út sérstaka reglugerð sem myndi kveða á um sérstaka skoðun á tíu ára fresti. Sú reglugerð hefur ekki enn hlotið brautargengi innan stjórnsýslunnar en hin tíðu slys undanfarið hafa gert það að verkum að mögulega verður breyting þar á.

„Í ljósi þeirra tilvika sem hafa komið upp undanfarið hefur Vinnueftirlitið ákveðið að taka málið upp í nýskipuðu vinnuverndarráði í mannvirkjagerð,” segir Vera.

Í ráðinu sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í mannvirkjagerð ásamt fulltrúum Vinnueftirlitsins og er markmið ráðsins að koma með tillögur að heildrænni áætlun um leiðir til að bæta vinnuverndarstarf í starfsgreininni.

„Að því er varðar öryggi krana verður skoðað hvort að ástæða sé til að taka upp sérstaka skoðanir þegar kranar verða 10 ára og eldri eða hvort grípa eigi til annarra aðgerða.”

Heimild: Frettabladid.is