Home Fréttir Í fréttum Sjóvarnargarður við Eiðsgranda betrumbættur

Sjóvarnargarður við Eiðsgranda betrumbættur

118
0
Mynd: Reykjavíkurborg

Sjóvarnargarðurinn við Eiðsgranda verður betrumbættur og breikkaður fyrir áramót. Þetta er fyrsti áfangi, meðfram Eiðsgranda, en stefnt er á að annar áfangi, meðfram Ánanaustum, verði framkvæmdur á næsta ári. Unnið er að flokkun á grjótlager sem stendur við Ánanaust.

Vegfarendur út á Granda og við Ánanaust hafa tekið eftir að hafnar eru nauðsynlegar endurbætur við sjóvarnargarðinn. Grjóti hefur þegar verið safnað í haug við Ánanaust og er verktakinn að vinna sig í gegnum þennan grjótlager, flokka og flytja efni.

Bráðlega mun því verktakinn, Suðurverk ehf, svo byrja að endurgera sjóvarnargarðinn við Eiðsgranda.

Mynd: Reykjavíkurborg

Um er að ræða upprif og endurbyggingu sjóvarnargarðs frá dælustöð við Eiðsvík við Boðagranda í vestri að hringtorgi Hringbrautar og Ánanausta, Grandatorgi, í austri.

Rífa þarf upp núverandi göngustíg samhliða viðgerð á sjóvörnum, gert er ráð fyrir að verktaki skili stígstæði grófjöfnuðu í lok framkvæmda. Göngustígurinn verður svo endurgerður næsta vor.

Sjóvarnargarðurinn verður breikkaður á þann hátt að hlaðið er upp undirlagi framan við garðinn og hann svo endurhlaðinn og breikkaður, líkt og sést á sniðmynd sem fylgir fréttinni. Þetta er gert til þess að aldan stöðvist fyrr á garðinum, þannig að hún nái ekki yfir hann.

Hæð garðsins verður ekki hærri en 6,5 m.y.s., sem er svipuð hæð og núverandi garður. Fyrirhugað er að þessar framkvæmdir við Eiðsgranda klárist fyrir áramót. Heildarkostnaður verkefnis er áætlaður 200 milljónir krónur.

Teikning: VSÓ Ráðgjöf /Reykjavíkurborg

Endurgerð sjóvarnargarðs meðfram Ánanaustum
Í undirbúningi er verkhönnun á áframhaldandi endurgerð sjóvarnargarðsins frá hringtorginu við JL húsið meðfram Ánanaustum og að hafnarmörkum hjá Sorpu.

Þessar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næsta ári. Sniðið á garðinum á þeim stað verður með sama hætti og unnið er að nú við Eiðsgranda. Hæðin á garðinum mun breytast óverulega nema þar sem þess er sérstaklega þörf.

Tengill

Verkefnið í framkvæmdasjá

Heimild: Reykjavíkurborg