Home Fréttir Í fréttum Smíði nýrrar brúar að hefjast yfir Jökulsá á Sólheimasandi

Smíði nýrrar brúar að hefjast yfir Jökulsá á Sólheimasandi

229
0
Tölvugerð mynd af væntanlegri brú á hringveginum um Sólheimasand. Ofar sést afleggjarinn að Sólheimajökli. VEGAGERÐIN

Smíði nýrrar brúar er að hefjast yfir Jökulsá á Sólheimasandi, á kafla hringvegarins milli Skógafoss og Mýrdals. Hún á að vera tilbúin eftir eitt ár og leysir af hólmi 53 ára gamla einbreiða brú, sem reist var árið 1967.

Tilboð í verkið voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Lægsta boð áttu ÞG verktakar úr Reykjavík. Það hljóðar upp á 734,6 milljónir króna. Er það 157 milljónum króna undir kostnaðaráætlun, eða 82,4 prósent af áætluðum verktakakostnaði, sem var upp á 891,7 milljónir króna. Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu.

Brúin, hringvegurinn og gatnamótin að Sólheimajökli. Horft er til vesturs í átt að Skógum.
VEGAGERÐIN

Alls bárust fimm tilboð og benda þau til að verktakar hafi verið ákafir í að hreppa verkið. Næstlægsta boð kom frá Eykt ehf., upp á 742 milljónir króna, eða 83,3 prósent af kostnaðaráætlun. Þriðja lægsta boð átti Ístak hf, sem bauðst til að vinna verkið fyrir 842 milljónir króna eða 94,4 prósent af áætlun.

Tilboð Jáverks á Selfossi, upp á 899 milljónir króna, og tilboð Suðurverks og Metrostav, upp á 913 milljónir króna, voru rétt yfir áætluðum verktakakostnaði.

Nýja brúin verður tvíbreið og 163 metra löng, fjórum metrum lengri en gamla einbreiða brúin, sem er 159 metra löng.
VEGAGERÐIN

Nýja brúin verður 163 metra löng, eftirspennt bitabrú í fimm höfum. Auk smíði hennar felst í verkinu að endurbyggja þjóðveginn á eins kílómetra kafla og rífa gömlu brúna. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 15. nóvember 2021.

Margir ferðamannastaðir nærri brúnni hafa á undanförnum árum orðið með þeim fjölsóttustu á landinu. Má nefna Skógafoss, Sólheimajökul, flugvélarflakið á Sólheimasandi, Dyrhólaey, Reynisfjöru og Vík í Mýrdal.

Nýja brúin á að vera tilbúin í nóvember á næsta ári.
VEGAGERÐIN

Þá er algengt að erlendir ferðamenn aki frá Keflavíkurflugvelli í Skaftafell og að Jökulsárlóni og svo aftur sömu leið til baka. Þá fara þeir tvisvar yfir brúna á Sólheimasandi.

Heimild: Visir.is

Previous articleOpnun útboðs: Hringvegur (1) um Jökulsá á Sólheimasandi
Next articleFramkvæmdir við seiðaeldisstöð á Kópaskeri að hefjast