Home Fréttir Í fréttum Þróun Sundahafnar – Drög að tillögu að matsáætlun

Þróun Sundahafnar – Drög að tillögu að matsáætlun

71
0
Mynd úr safni. Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV

Faxaflóahafnir birta nú til kynningar drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda Faxaflóahafna við dýpkun Viðeyjarsunds og landfyllinga.

Fyrirhugað er að lengja Skarfabakka til suðurs, færa Kleppsbakka utar og lengja Sundabakka og Vogabakka svo að þeir nái saman.

Við Klettagarða verður núverandi landfylling stækkuð utan við skólphreinsistöð Veitna.

Í heildina er áætlað að taka 3.150.000 m3 af efni af hafsbotni við dýpkun Viðeyjarsunds. Heildarefnisþörf allra landfyllinga er metin um 2 milljónir m3.

Um er að ræða efnistöku og haugsetningu sem nemur meira magni en 150.000 m3 og er á svæði sem er stærra en 5 ha.

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fellur framkvæmdin því undir flokk A, þ.e. framkvæmd sem ávallt er háð umhverfismati, með vísan til töluliða 2.01 og 13.01 í 1. viðauka laganna.

Drög að tillögu að matsáætlun eru nú birt til kynningar um tveggja vikna skeið, frá 23. október til og með 6. nóvember 2020. Á þessu tímabili gefst almenningi tækifæri til að koma með athugasemdir við tillöguna.

Skriflegum athugasemdum við drög að tillögu að matsáætlun má skila til og með 6. nóvember 2020.

Athugasemdirnar skal merkja „Sundahöfn – umhverfismat“ og senda með tölvupósti á netfangið ragnhildur.gunnarsdottir@efla.is eða með bréfpósti á:
EFLA verkfræðistofa
Ragnhildur Gunnarsdóttir
Lynghálsi 4
110 Reykjavík

Hér er hægt að sækja matsáætlunina á pdf-formi

Heimild: Faxaflóahafnir