Home Fréttir Í fréttum Opna Dýrafjarðargöng með óvenjulegu sniði

Opna Dýrafjarðargöng með óvenjulegu sniði

168
0
Svona var aðkoma ganganna Arnarfjarðarmegin þann 20. ágúst í fyrra. Mynd: Vegagerðin/Haukur Sigurðsson

Göngin koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið einn helsti farartálminn milli byggða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verða opnuð næsta sunnudag.

Lítið verður um borðaklippingar eða mannfögnuði í tilefni opnunarinnar sem verður með óvenjulegu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu.

Þess í stað mun stutt athöfn fara fram í húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni þaðan sem ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verður útvarpað í þá bíla sem bíða þess að aka í gegnum göngin.

Þá mun Sigurður hringja í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði sem mun opna hliðin að göngunum beggja megin frá. Eru allir Vestfirðingar hvattir til að mæta og vera með þeim fyrstu til að aka í gegn.

Greint er frá þessu á vef Vegagerðarinnar og að til standi að halda veglegri viðburð þegar aðstæður leyfi.

Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 kílómetra. Göngin koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið einn helsti farartálminn milli byggða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

Heimild: Frettabladid.is