Home Fréttir Í fréttum Fjármögnunaraðilar lesið stöðuna rangt

Fjármögnunaraðilar lesið stöðuna rangt

99
0
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Óvissa fyrr á árinu, lóðaskortur og skert aðgengi að fjármagni eru meðal ástæðna fækkunar íbúða í byggingu.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir hluta skýringar þess mikla samdráttar á byggingamagni íbúða sem mældist í hausttalningu samtakanna nýverið vera að finna í þeirri miklu óvissu sem einkenndi horfur á fasteignamarkaði – sem og efnahagsmálum almennt – á fyrri hluta ársins.

Þótt talningin hafi átt sér stað í september endurspeglar hún ekki ákvörðunartöku og áform um uppbyggingu frá þeim tíma, enda líður töluverður tími frá því og þar til framkvæmdir hefjast.

Bendir Ingólfur á að tilhneigingin í niðursveiflum hér á landi hafi verið að samhliða aukinni verðbólgu og atvinnuleysi hækki vextir, eftirspurn dragist saman, og raunfasteignaverð lækki.

Því má ætla að á fyrri hluta ársins eða jafnvel seint á síðasta ári, þegar ákvarðanir um þær framkvæmdir sem nú eru hafnar voru teknar, hafi fjármögnunaraðilar að einhverju leyti lesið stöðuna rangt og verið hikandi.

„Síðar hefur komið í ljós að staðan er allt önnur. Vaxandi kaupmáttur, mun lægri húsnæðisvextir til heimilanna og fólksfjölgun er allt þveröfugt við það sem kalla má hefðbundið í íslenskri niðursveiflu, og hefur allt stuðlað að aukinni eftirspurn á húsnæðismarkaði.“

Það sem ákveðið hafi verið að byggja eftir stýrivaxtalækkanir Seðlabankans – og eftir að eftirspurnaráhrif þeirra komu í ljós – eigi enn eftir að koma fram í tölum samtakanna. Afgreiðslutími skipulags- og byggingamála var raunar annað sem spurt var út í í áðurnefndri könnun, og sögðu 94% svarenda að hann þyrfti að stytta.

Annar áhrifaþáttur sé svo lóðaskortur. Í könnun samtakanna meðal félagsmanna mannvirkjasviðs sögðu 80% að skortur á lóðaframboði kæmi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu.

Hættan sé þá að saman muni fara mikil eftirspurn og afar lítið framboð á fasteignamarkaði, með tilheyrandi verðþrýstingi.

Heimild: Vb.is