Home Fréttir Í fréttum Hefja fram­kvæmdir við ný gatna­mót Borgar­túns og Snorra­brautar

Hefja fram­kvæmdir við ný gatna­mót Borgar­túns og Snorra­brautar

93
0
Eftir framkvæmdirnar verður ekki lengur beygja við enda Borgartúns. REYKJAVÍKURBORG

Verktakinn Hellulist ehf. mun koma sér fyrir við enda Borgartúns á morgun, 9. október, þar sem framkvæmdir hefjast við ný gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar.

Um er að ræða fyrsta skrefið í stærri breytingum á gatnakerfi Snorrabrautar, Borgartúns og Bríetartúns frá Sæbraut að Hverfisgötu við Hlemm.

Áætlað er að framkvæmdum við þennan áfanga ljúki í desember á þessu ári en á meðan þeim stendur verður Borgartúni tímabundið breytt í botnlangagötu milli kínverska sendiráðsins og húss Eflingar.

Þegar framkvæmdum lýkur verður ekki lengur beygja á Borgartúninu heldur verður það framlengt út að Snorrabraut.

Í fyrsta áfanga verður opnað fyrir hægri beygjur en göngu- og hjólaleiðir verða einnig endurbættar, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Hér má sjá fyrirhugaðar framkvæmdir.
REYKJAVÍKURBORG

Í síðari áfanga verður opnað í gegnum miðeyju Snorrabrautar fyrir vinstri beygju úr Borgartúni. Gatnamótin verða ljósastýrð og samstillt við nærliggjandi gatnamót.

„Verkið felst í að grafa og fylla í götu og gangstéttar, grafa og fylla vegna fráveitu- hitaveitu-, háspennu- og götulýsingarlagna, leggja fráveitu-, hitaveitu- og götuljósalagnir, grafa fyrir og leggja ídráttarrör vegna umferðarljósa ásamt tengibrunnum, reisa ljósastólpa, malbika, leggja staðsteyptan kantstein, leggja hellur og ganga frá hliðarsvæðum.

Að endingu verður svo gengið frá yfirborði,“ segir á vef Reykjavíkurborgar um framkvæmdirnar.

Heimild: Visir.is