Home Fréttir Í fréttum Tryggja 512 milljónir í nýja flugstöð á Akureyri

Tryggja 512 milljónir í nýja flugstöð á Akureyri

97
0
Nauð­syn­legt verður að byggja við flug­stöðina til að geta sinnt við­unandi þjónustu fyrir milli­landa- og innan­lands­flug að mati aðgerðahóps sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra Fréttablaðið/Völundur

Búið er að tryggja fjármögnun fyrir nýja flugstöð á Akureyri. Þá verður 200 milljónum varið í hönnun á stækkun flugstöðvarinnar og 312 milljónir í flughlaðið.

Uppbygging nýrrar flugstöðvar gæti skapað hátt í 90 ársverk. Greint er frá þessu á eyfirska fréttavefnum Vikudegi og staðfestir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á Facebook.

Þetta eru tímamót í baráttu Akureyrarbæjar til að tryggja nýja flugstöð á Akureyri, sem hefur orðið gríðarlega mikilvæg miðstöð fyrir bæði innanland- og millilandaflug síðustu ár.

Um Akureyrarflugvöll fóru 168.212 farþegar í innanlandsflugi og 16.050 í millilandaflugi árið 2019. Bæjarráð hefur skorað á stjórnvöld í mörg ár að bæta flugvöllinn.

Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, undir­rituðu vilja­yfir­lýsingu síðast­liðinn desember um frekari upp­byggingu á flug­vellinum sem gátt inn í landið.

Í fram­haldinu var hópurinn skipaður en í honum sátu full­trúar ráðu­neytanna, Akur­eyrar­bæjar, Eyþings, ferða­þjónustunnar á Norður­landi og Isavia.

Stækkanir og fram­kvæmdir við Akur­eyrar­flug­völl og Egils­staða­flug­völl eru meðal sam­göngu­fram­kvæmda sem stjórn­völd ætla að flýta til að skapa störf í kóróna­veirufar­aldrinum. Þetta er hluti þeirra efna­hags­að­gerða ríkis­stjórnarinnar sem kynntar í mars.

„Það var mjög ánægjulegt að það tókst að tryggja fjármagn til nýrrar flugstöðvar og flughlaðs á Akureyrarflugvelli í gegnum fjáraukalög í mars,“ segir Njáll en tillögurnar voru unnar í fjármálaráðuneytinu og meirihluta fjárlaganefndar að sögn Njáls.

Nú sé unnið að því í ráðuneytinu að fullmóta sérstaka fjárfestingaráætlun til næstu þriggja ára.

Isavia vonast til að bjóða út byggingu flugstöðvarinnar í febrúar á næsta ári að því er fram kemur í frétt Vikudags.

Heimild: Frettabladid.is