Home Fréttir Í fréttum Fimleikahús tekið í notkun á Egilsstöðum

Fimleikahús tekið í notkun á Egilsstöðum

82
0
Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari fimleikadeildar Hattar, Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, klipptu á borða og opnuðu húsið.

Eitt þúsund fermetra viðbygging við íþróttahúsið á Egilsstöðum, sérstaklega ætluð undir fimleika og frjálsíþróttir, var formlega opnuð í dag.

Forseti Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra voru meðal gesta.

„Það sýnir framsýni og þrautseigju að hugsa svona vel um samfélagið sitt,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra við athöfnina í dag.

Húsið er byggt af íþróttafélaginu Hetti í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshéraðs.

Með því að íþróttafélagið héldi utan um bygginguna tókst að koma henni upp á nokkuð ódýrari hátt en ella þar sem hluti þeirra sem komu að framkvæmdinni gáfu vinnu sína í þágu félagsins.

Lilja sagði verkið sýna samheldni sem eftir væri tekið á landsvísu. Því væri ástæða til að óska ekki bara Héraðsbúum heldur landsmönnum öllum til hamingju.

Undir þetta tók Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, sem sagði framkvæmdina ungmennafélagsandann í hnotskurn.

Hún sagði marga sérfræðinga að sunnan hringja núna austur til að læra af fordæmi Hattarfólks. Íþróttahreyfingin í heild myndi hagnast á því þegar svarað væri í símann.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vitnaði í Hrafnkelssögu Freysgoða og Hefnendurna, eða The Avengers, í ræðu sinni.

Hann rifjaði upp að leiðtogi Hefnendanna hefði sagt að þar hefði kviknað sú hugmynd að hóa saman fólki og sjá hvort það gæti ekki gert eitthvað stórkostlegt saman.

Það sýndi sig í fimleikahúsinu. Þá hefði Hrafnkell Freysgoði lagt áherslu á að ráðdeild væri dyggð og húsið væri sönnun þess.

Viðbyggingin hýsir fullbúið fimleikahús ásamt hlaupabrautum og stökkgryfju fyrir frjálsíþróttir.

Hún mun gjörbreyta aðstöðu til iðkunar beggja íþróttanna en einnig annarra þar sem bitisti hefur verið um tíma í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Árið 2013 var framkvæmdum sveitarfélagsins forgangsraðað og var fimleikahúsið á þeim lista en þó neðarlega.

Farið var að leita leiða til að greiða götu þess og varð úr að árið 2015 var gerð viljayfirlýsing milli Hattar og Fljótsdalshéraðs og samningar síðar undirritaðir ári síðar.

Fyrsta skóflustungan var tekin haustið 2018 og hófust framkvæmdir í kjölfarið. Vinna við húsið gekk vel enda er það tekið í notkun ári fyrr en áætlað var. Sveitarfélagið leggur 220 milljónir til verksins.

Heimild: Austurfrett.is