Home Fréttir Í fréttum Kostnaður við GAJU verulega vanáætlaður

Kostnaður við GAJU verulega vanáætlaður

102
0
Mynd: RÚV
Stjórnarformaður Sorpu segir að kostnaður við byggingu GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU í Álfsnesi, hafi verið verulega vanmetinn í áætlanagerð.
Starfsleyfisumsókn stöðvarinnar hafi lent á milli tveggja stjórnsýslukerfa.

„Þetta er bara vanáætlun í mínum huga. Ég held að fólk hafi bara ekki gert sér grein fyrir því. Þessi stöð er fyrst sinnar tegundar á Íslandi.

Menn hafa ekki ráðist í viðlíka uppbyggingu á jafn stóru umhverfismáli.

Það er bara ýmislegt sem kemur til á leiðinni, tækjabúnaður og fleira sem kannski var gert ráð fyrir og fleira sem var tekið með í reikningsskapinn.

Fyrst og fremst var þetta bara vanáætlun og hefði mátt standa betur að því að gera fjárhagslegar áætlanir varðandi GAJU.“ segir Líf Magneudóttir, stjórnarformaður SORPU

Lentu á milli tveggja stjórnsýslueininga

GAJA hefur ekki fengið starfsleyfi og hefur því ekki getað hafið formlega starfsemi. Umhverfisráðherra hefur þó veitt tímabundna undanþágu svo prófanir geti hafist.

Líf segir að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi verið  búið að vinna starfsleyfi fyrir stöðina og leitaði til Umhverfisstofnunnar til samráðs.

„Þá varð einhver viðsnúningur í málinu. Umhverfisstofnun taldi sig eiga að gefa út starfsleyfið þannig að ráðuneytið þurfti að skerast í leikinn og skera í rauninni úr um það hvort stjórnsýslueiningin ætti að gefa út þetta starfsleyfi.“ segir Líf.

Vill að formaður sitji allt kjörtímabil stjórnar

Líf segir að öllum sé kunnugt um slæma fjárhagsstöðu SORPU. Ráðast hafi þurft í endurfjármögnun fjárfestingarsamlagsins. Í því skyni hafi annars vegar verið leitað til sveitarfélaganna um að leggja aukin stofnframlög til SORPU og fjárfestingar og fjármögnunaráætlanir samlagsins.

Líf tók nýverið við stjórnarformennsku hjá SORPU. Áður var Birgir Jón Jónsson stjórnarformaður. Hún segir að skiptin séu samkvæmt eigendasamkomulagi og hafi legið fyrir þegar stjórnin var skipuð.

Sveitarfélögin hafi gert með sér samkomulag um formennsku í stjórn fyrirtækisins.  Líf myndi vilja endurskoða þetta fyrirkomulag.

„Þetta er eitthvað sem mér finnst að við eigum að endurskoða. Ég held að það sé réttast að hafa sama formanninn það kjörtímabil sem stjórn situr, en þetta er allt í endurskoðun samhliða, og burt séð frá endurskipulagningu SORPU, þá held ég að það sé ærið tilefni að fara í saumana á því hvernig SORPA starfar, fyrirtækið í heild“ segir Líf.

Heimild: Ruv.is