Home Fréttir Í fréttum Faraldurinn hefur engin áhrif á byggingu nýs Landspítala

Faraldurinn hefur engin áhrif á byggingu nýs Landspítala

209
0
Mynd/NLSH

COVID-19 faraldurinn hefur ekki haft nein áhrif á uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.

Útboð á uppsteypu meðferðarkjarnans er handan við hornið. Fimm verktakafyrirtæki buðu í verkið og eru fyrirtækin nú á lokastigi tilboðsgerðar.

Tilboðin eru á bilinu 68 til 86 prósent af kostnaðaráætluninni.

Vinnan við uppbyggingu nýja Landspítalans við Hringbraut er á áætlun og hefur COVID-19 faraldurinn ekki haft nein áhrif á framgang uppbyggingarinnar.

„Nú er opnun á útboði um uppsteypu meðferðarkjarnans handan við hornið en tilboðin frá verktökunum fimm sem stóðust forvalið verða opnuð á föstudaginn.

Grunnurinn stendur tilbúinn, jarðvinnu lokið og ÍAV sem var með jarðvinnuna er farið af staðnum,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.

Næsta stóra skrefið í framkvæmdinni er að hefja smíði á rúmlega 70 þúsund fermetra meðferðarkjarna og bílakjallara.„Það hafa verið opnuð tvö útboð tengd uppsteypunni á síðustu vikum.

Gerður verður samningur við verkfræðistofuna Eflu á 34,7 milljónir króna, eða 28 prósent af kostnaðaráætlun, í yfirferð á séruppdráttum.

Síðan er verið að fara yfir hæfis- og hæfnismat vegna tilboða í verkfræðivinnu og verkeftirlit, en fimm fyrirtæki buðu í verkið, sem er á kostnaðaráætlun upp á 508 milljónir króna.

Tilboðin voru á bilinu 68 til 86 prósenta af kostnaðar­áætluninni,“ segir Gunnar.

„Það mun taka okkur örfáa daga að yfirfara gögnin og fljótlega ætti að liggja fyrir ákvörðun um val á tilboði.

“Ýmis önnur útboð eru einnig yfirstandandi. „Auðvitað er útboðið um uppsteypuna, sem hljóðar upp á marga milljarða stóra málið, en ég geri ráð fyrir að verktakarnir fimm sem um ræðir, Eykt, Íslenskir aðalverktakar, Ístak, Rizzani De Eccher og ÞG verktakar, séu nú á lokastigi í tilboðsgerðinni, sem stendur yfir í nær átta vikur.

Þá eru tvö útboð opin og í auglýsingu hjá Ríkiskaupum, bæði vegna vinnubúðasvæðisins.

Annað snýst um jarðvinnu og veitnagerð á svæðinu og hitt um vinnubúðirnar sjálfar, kaup á gámum, en tilboðsfrestur er til 3. september,“ segir Gunnar.

Stærstum hluta starfa verkefnastjórnarinnar verður áfram útvistað þó að bætt hafi verið við verkefnastjórum. „Daglega vinna tugir hönnuða að hönnun á meðferðarkjarnanum, rannsóknahúsinu og lokaáfanga gatnahönnunar.

Fljótlega munum við efna til forvals í aðdraganda útboðs vegna bílastæða- og tæknihúss á svæðinu.

Í húsinu verður annars vegar varaaflskerfi fyrir spítalann og hins vegar allt að 550 bílastæði.

Í apríl var gerð opinber markaðskönnun tengd húsinu og var mikill áhugi hjá verktökum á þessu húsi.

Húsið er mjög lítið miðað við meðferðarkjarnann og ætti því að höfða til mun fleiri verktaka en ella,“ segir Gunnar.

„Aðalmálið er að allir standi saman um að koma verkefnunum áfram í loftið og finn ég ekki annað en að þjóðin öll standi nær óskipt þar að baki.“

Heimild: Frettabladid.is