Home Fréttir Í fréttum Byrja eftir helgi að malbika síðasta kaflann milli Ásbyrgis og Dettifoss

Byrja eftir helgi að malbika síðasta kaflann milli Ásbyrgis og Dettifoss

350
0
Guðmundur Hjálmarsson, stofnandi og eigandi verktakafyrirtækisins G. Hjálmarsson hf. STÖÐ 2/ARNAR HALLDÓRSSON

Vinna við Dettifossveg gengur vel og verður byrjað að malbika síðasta kaflann milli Ásbyrgis og Dettifoss eftir verslunarmannahelgi.

Verktakinn segir að þetta verði einn fallegasti vegur landsins. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Ríflega tuttugu manna hópur frá eyfirska verktakanum G. Hjálmarsson hf. vinnur lokaáfanga Dettifossvegar, sem tengir nokkrar frægustu náttúruperlur Norðurlands; Ásbyrgi, Hljóðakletta og Dettifoss, og því er mikil ferðamannaumferð á vinnusvæðinu.

„Samt megum við nú vera heppnir núna. Umferðin er svona 35 prósent miðað við það sem hún var í fyrra,“ segir verktakinn Guðmundur Hjálmarsson. Þannig að það er þægilegra að vinna verkið í covid.

Hjálmar Guðmundsson, ýtustjóri og verkstjóri við Dettifossveg.
STÖÐ 2/ARNAR HALLDÓRSSON.

Hjálmar sonur eigandans er verkstjóri og stýrir jafnframt stórri jarðýtu. Hann segir verkið ganga vel.

„Við erum bara á góðri áætlun með þetta. Og erum að klára styrktarlagið hérna vonandi um verslunarmannahelgi,“ segir Hjálmar.

Við tökum eftir því að ein búkollan heitir Dettifoss.

„Já, ég tók upp á því að hérna þegar ég byrjaði – ég er með sex búkollur hérna – og ég skírði þær allar fossnöfnum,“ segir Guðmundur en nöfnin sótti hann í fossa í Jökulsárgljúfrum og Hólmatungum.

-Eimskip hefur ekkert hringt og kvartað?

„Nei, ég hef ekki heyrt í þeim,“ svarar Guðmundur og glottir.

Búkollan Dettifoss.
STÖÐ 2/ARNAR HALLDÓRSSON

Uppbygging Dettifossvegar hófst árið 2008 og voru þá vonir bundnar við að lagningu þessa 55 kílómetra langa vegar myndi ljúka á nokkrum árum.

En núna sér loks fyrir endann á verkinu. Aðeins 8,5 kílómetrar eru eftir á leiðinni milli Dettifoss og Ásbyrgis, á kafla milli Hólmatunga og Vesturdalsafleggjara.

„Við stefnum á að fara að malbika hérna fljótlega upp úr verslunarmannahelgi,“ segir Guðmundur. Lokaáfanginn niður í Vesturdal og Hljóðakletta verður þó ekki kláraður fyrr en næsta sumar.

Athygli vekur að móinn úr vegstæðinu er aftur lagður í vegkantana og mun þannig gróa saman við veginn á nokkrum árum.

Gróðurþekjan sem fjarlægð var úr vegstæðinu er síðan lögð í vegkantana. Þannig mun nýi vegurinn renna saman við náttúrlegt gróðurlendi svæðisins.
STÖÐ 2/ARNAR HALLDÓRSSON.

„Gömlu móarnir settir hérna upp að köntunum í lokafrágangi. Kemur bara vel út,“ segir Hjálmar.

-Þannig að þetta verður flottur vegur?

„Hann verður það. Ætli þetta verði ekki bara einn fallegasti vegur landsins,“ segir verkstjórinn.

En hvenær verður svo komið samfellt malbik milli Kelduhverfis og Mývatnsöræfa?

„Eigum við ekki að stefna á 1. september,“ svarar Guðmundur.

-Þá verður kátt í bæ?

„Þá verður kátt í bæ, sko.“

Heimild: Visir.is