Home Fréttir Í fréttum Átta fyrirtæki vilja hanna fyrsta áfanga Borgarlínu

Átta fyrirtæki vilja hanna fyrsta áfanga Borgarlínu

181
0
Mynd: Reykjavíkurborg
Átta fyrirtæki hafa sótt um að hafa yfirumsjón með for- og verkhönnun á fyrsta áfanga Borgarlínunnar.
Sjö þeirra eru erlend, en öll eru þó með íslenska hönnuði eða verktaka á sínum snærum.
Skilafrestur í útboði Ríkiskaupa um fyrsta áfanga verkefnisins rann út á hádegi í vikunni.

Fyrirtækin sem tóku þátt í útboðinu eru: sænska arkitektúrfyrirtækið White arkitekter Aktiebolag, sænska verktakafyrirtækið SWECO International AB, norska ráðgjafafyrirtækið Norconsult AS, frönsku verktaka- og ráðgjafafyrirtækin INGEROP og Egis Villes & Transports, íslenska verkfræðistofan EFLA hf, danska verkfræðistofan COWI A/S og franska verktaka- og arkitektúrstofan Artelia.

Tilboð fyrirtækjanna eru nú í matsferli. Þrjú til fjögur þeirra taka þátt í seinni hluta útboðsins en endanlega niðurstaða á að liggja fyrir í nóvember.

Borgarlínan er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Hún á að verða hryggjarstykkið í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og er kerfi hraðvagna.

25 stoppistöðvar verða í fyrsta áfanga samkvæmt fyrstu tillögum.

Áfanginn verður þrettán kílómetra langur og er áætlað að taka hann í notkun árið 2023.

Heimild: Ruv.is