Home Fréttir Í fréttum Götur í Hrísey malbikaðar í fyrsta skipti

Götur í Hrísey malbikaðar í fyrsta skipti

208
0
Pétur Mikli ferjaði malbikið til Hríseyjar. Mynd: Ruv.is

Það var mikið um að vera í Hrísey í dag en þar var verið að leggja malbik í fyrsta skipti. Farið var með um 800 tonn af heitblönduðu malbiki út í eyju. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er 45 milljónir.

Flestar götur í Hrísey eru hellulagðar eða steyptar en nú verður breyting á því malbik var lagt þar í fyrsta skipti í dag.

Þótt það sé lagt á sama hátt og annars staðar þá er flækjustigið við að koma heitblönduðu malbikinu á staðinn töluvert hærra.

Blandað á Akureyri – lagt í Hrísey
Malbikið er blandað á malbikunarstöðvum á Akureyri, þaðan keyra átta vörubílar því til Dalvíkur, þar sem því er mokað í tank um borð í pramma, sérútbúnum til þess að halda hita á hráefninu á leiðinni út í Hrísey.

Það tekur prammann 40 mínútur að ferja um 250 tonn af malbiki út í eyju og þá er betra að hafa snör handtök því malbikið má ekki kólna.

„Þetta er langur prósess og lykillinn í þessu er alltaf að halda hitastiginu á malbikinu sem hæstu því það þarf að leggjast út við ákveðið hitastig svo það nái þjöppun,“ segir Kristinn H. Svanbergsson framkvæmdastjóri Malbikunar Norðurlands.

Það sé enginn munur á því að leggja malbik í Hrísey eða annars staðar, flækjustigið sé flutningurinn.

Fjörutíu og fimm milljónir og 800 tonn
Pramminn fer nokkrar ferðir því í heildina eru notuð um 800 tonn af malbiki og áætlaður heildarkostnaður er 45 milljónir. Þeir byrjuðu að leggja malbikið um klukkan sex í morgun og um sjö þúsund fermetrar verða malbikaðir í einni beit.

Stærsti hluti þess er gatan Austurvegur, sem nær úr þorpinu og austur í sumarhúsabyggðina, ásamt öðrum smærri verkefnum.

Öðruvísi og skemmtilegt verkefni
Finnur ehf. vann að jarðvegsskiptum og undirbúningi framkvæmdarinnar í fyrrasumar. „Finnur sjálfur kom með þá hugmynd í fyrra og lagði það fram við Akureyrarbæ að þetta væri ekkert mál. Við gætum leyst þetta fyrir þau.

Þetta var svo í einhverjum þankagangi hjá þeim í vetur og kemur svo snögglega til núna í vor á fundi, þá er þessi hugmynd rifin upp,“ segir Kristinn. Finnur ehf. og Malbikun Norðurlands sjá um framkvæmdina.

Verkefnið sé vissulega öðruvísi en rosalega skemmtilegt. Það muni miklu til dæmis fyrir mokstursmenn að hafa malbik til að renna tönnum og skóflum eftir á veturna, svo sé það bara fallegra og betra og sú litla umferð sem er í eyjunni þyrli þá ekki upp ryki.

Heimild: Ruv.is