Home Fréttir Í fréttum 12 milljarða framkvæmdir hjá Landsvirkjun á næstu þremur árum

12 milljarða framkvæmdir hjá Landsvirkjun á næstu þremur árum

134
0
Mynd: Landsvirkjun

Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum.

Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í ýmis atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.

Á hverju ári stendur Landsvirkjun fyrir umfangsmiklum viðhalds- og endurbótaverkefnum í rekstri og við 18 aflstöðvar sínar um allt land.

Á þessu ári er áætlað að ráðast í um 90 verkefni fyrir um 2,4 milljarða króna og koma þau að mestu til framkvæmda í sumar og haust eða um leið og hægt verður að byrja á þeim.

Meðal þeirra verkefna sem stefnt er að byrja á í ár eru:

Endurbætur á vél- og rafbúnaði í fjórum aflstöðvum; Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Sigöldustöð og Kröflustöð.

Viðgerðir og lagfæringar á flóðfarvegum á Þjórsársvæði.

Bygging göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá ofan Þjófafoss.

Viðgerðir og endurbætur á stöðvarhúsi, inntakshúsi og inntaksþró Steingrímsstöðvar við Sogið.

Auk þessara verkefna er nú til skoðunar að flýta ýmsum framkvæmdum á næstu þremur árum. Meðal nýrra verkefna eru mögulegar undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá, s.s. við vegagerð, brúarsmíði og aðstöðusköpun.

Þær framkvæmdir myndu þó ekki hefjast fyrr en á árinu 2021.

Heimild: Landsvirkjun.is