Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við endurgerð Hegningarhússins hefjast í sumar

Framkvæmdir við endurgerð Hegningarhússins hefjast í sumar

117
0
Mynd/Stjórnarráðið

Ríkiseignir og Minjavernd hafa gengið frá undirritun samstarfssamnings um að hefja fyrsta áfanga við endurgerð á Hegningarhúsinu Skólavörðustíg.

Húsið er friðað samkvæmt lögum um menningarminjar og mikilvægt að viðgerð hússins taki mið af upprunalegri gerð þess, bæði hvað efnisval og handverk varðar.

Framkvæmdir munu hefjast strax í sumar og eru þær gerðar á grundvelli sérstaks fjárfestingarátaks á vegum stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli.

Minjavernd mun taka að sér að annast og hafa umsjón með endurgerð Hegningarhússins fyrir Ríkiseignir fyrir allt að 342 m.kr. í samræmi við fjárfestingarátak stjórnvalda.

Unnið verður að viðgerðum á ytra byrði hússins og nánasta umhverfi á grundvelli fyrirliggjandi kostnaðaráætlunar.

Húsið verði opið almenningi
Samhliða samningi þessum er unnið að því í samstarfi við Minjavernd að tryggja aukið fjármagn til að ljúka endurgerð Hegningarhúss að utan, innan, hugsanlegrar byggingar í fangelsisgarði og frágangi lóðar hússins.

Endurgerð að innan mun jafnframt miðast við að húsið verði opið almenningi og að starfsemi í húsinu geti staðið undir rekstri hússins og öðrum kostnaði sem af eigninni stafar til framtíðar.

Heimild: Stjórnarráðið