Home Fréttir Í fréttum 36 gáma vinnubúðir brunnu til grunna við Jökulsárlón

36 gáma vinnubúðir brunnu til grunna við Jökulsárlón

236
0
Mynd: Slökkvilið Hornafjarðar
Altjón varð þegar eldur kviknaði í vinnubúðum við bæinn Hnappavelli, rétt hjá Fosshóteli við Jökulsárlón síðdegis í dag. Borgþór Freysteinsson, slökkviliðsstjóri á Höfn, segir þetta hafa verið 36 gáma vinnubúðir fyrir um það bil 40 manns, og nú standi grindurnar einar eftir. Borgþór segir engan hafa verið í búðunum þegar eldurinn kom upp og að slökkvistörf hafi gengið vel.

Svo virðist sem eldurinn hafi komið upp í herbergi austast í búðunum og breiðst mjög hratt út. Svo hratt, að þegar slökkviliðið kom að, segir Borgþór, var ljóst að vinnubúðunum yrði ekki bjargað.

„Okkar vinna fór þess vegna aðallega í að verja vélaskemmu við hliðina á búðunum, og það tókst,“ segir slökkviliðsstjórinn, en vinnubúðirnar eru rústir einar.

Tilkynning um eldinn barst á sjötta tímanum í dag og lauk slökkvistarfi seint á ellefta tímanum í kvöld. Slökkviliðsmenn frá Höfn voru þó ekki komnir til síns heima fyrr en upp úr eitt í nótt.

Vinnubúðirnar voru reistar í tengslum við byggingu viðbyggingar við hótelið á Jökulsárlóni. Þeirri vinnu er að mestu lokið og búðirnar þvi nánast mannlausar. Eini maðurinn sem enn gisti þar var að vinna í hótelinu þegar eldurinn kom upp. Rannsókn á eldsupptökum er í höndum lögreglu en ekkert bendir til íkveikju, að sögn Borgþórs.

Heimild: Ruv.is