Home Fréttir Í fréttum 1000 fermetra viðbygging við flugstöðina á Akureyri

1000 fermetra viðbygging við flugstöðina á Akureyri

158
0
Hugmynd að útfærslu flugstöðvarinnar Mynd: AVH - Aðsend mynd
Viðbygging á Akureyrarflugvelli þarf að vera 1000 fermetrar að mati aðgerðarhóps. Kostnaður er áætlaður um 900 milljónir króna. Hönnun, undirbúningur og upphaf framkvæmda er á þessu ári og 200 milljónir eru áætlaðar í verkefnið.

„Nauðsynlegt er að byggja við flugstöðina á Akureyrarflugvelli til að geta veitt viðunandi þjónustu samtímis fyrir millilanda- og innanlandsflug.“ Þetta eru niðurstöður úr skýrslu aðgerðahóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem var skipaður til að meta þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli. Skýrslan var kynnt í gær.

Hópurinn leggur til að ráðist verði í hönnun 1000 fermetra viðbyggingar svo hægt verði að afgreiða 220 sæta millilandaflugvél samhliða 70 sæta innanlandsflugvél. Þá á hönnunin að vera þannig að auðvelt verði að stækka bygginguna og breyta nýtingu á einstaka svæðum.

Kostnaður er áætlaður um 900 milljónir króna og lagt til að þegar í stað verði farið í jarðvinnu þannig að byggingarframkvæmdir geti hafist þegar hönnun líkur. Fimmtíu ársverk verða til við viðbygginguna.

Tvö hundruð milljónir í verkefnið á þessu ári

Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður aðgerðahópsins, segir skýrsluna þarfagreina hversu stóra flugstöð þurfi miðað við þær væntingar sem séu í kortunum. Forhönnunin sé í skýrslunni en boltinn sé nú kominn yfir til ISAVIA sem taki hönnunina yfir á næsta stig.

Hönnun og síðar stækkun á flugstöðinni hefst innan skamms enda meðal framkvæmda í flýtifjárfestingarátaki stjórnvalda vegna farsóttarinnar. Ingveldur segir að búið sé að tryggja fjármagnið og 200 milljónir fari í verkefnið á þessu ári. Hönnun, undirbúningur og upphaf framkvæmda sé áætlað á þessu ári, á næsta verði hafist handa við bygginguna sjálfa.

Samhliða stækkun flugstöðvarinnar verður flughlaðið á Akureyrarflugvelli stækkað til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins.

Heimild: Ruv.is